133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[22:31]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að halda langa tölu að þessu sinni. Ég ætla að spara málflutning minn þar til við tökum til umræðu tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2007–2010, menn hafa reyndar blandað umræðu um þessi tvö þingmál nokkuð saman, en ég mun ræða það mál eftir helgina. Þá mun ég fjalla um hugmyndir um einkaframkvæmd og þann misskilning sem uppi er hvað það snertir að annars vegar sé um að ræða þá áherslu að fara með vegagerð til einkaaðila og hins vegar að halda henni hjá hinu opinbera, hjá ríkinu. Þetta er mikill misskilningur.

Allflestar vegaframkvæmdir á Íslandi eru framkvæmdar af einkafyrirtækjum. Verk eru boðin út og hjá misstórum verktökum sem sinna mismunandi verkþáttum, þannig að það eru einkaaðilar sem koma að samgöngumálum og vegagerð á Íslandi að uppistöðu til. Það eru ekki ríkisfyrirtæki sem annast sjálfa framkvæmdina, það er umsjáin. Deilan sem nú geisar á milli þeirra sem vilja leið einkaframkvæmdar og að einkaaðilar fái leyfi til að byggja vegi og eiga þá til skamms eða langs tíma er annars vegar þessi og hins vegar er hinn hópurinn sem vill halda sig á hefðbundnu róli. Staðreyndin er sú að skýrslur sem hafa verið gerðar sem meta þessa tvo mismunandi kosti komast að þeirri niðurstöðu eða öllu heldur skýrsluhöfundar komast að þeirri niðurstöðu að einkaframkvæmd sé slæmur kostur fyrir greiðandann, fyrir skattborgarann. Allra verst sé það fyrirkomulag þegar farið er inn í eins konar skuggaframkvæmd, ég man nú ekki hvað það er kallað, þegar einkaaðili fær veginn til eignarafnota en ríkið, skattborgarinn borgar síðan á bak við tjöldin.

Hæstv. ráðherra hefur öðru hvoru í dag verið að minnast á Hvalfjarðargöngin í þessu efni og segir að þar hafi verið þverpólitísk samstaða að baki en ég vísa aftur í skýrslu Ríkisendurskoðunar hvað þau göng snertir þar sem segir að það sé ekki í reynd eiginleg einkaframkvæmd og auk þess, segir Ríkisendurskoðun í skýrslu sinni, að það sé ekki margt sem bendi til þess að einkaframkvæmdin sé heppileg fyrir skattborgarann, þvert á móti sé hún óhyggileg. Þetta eru þættir, hæstv. forseti, sem ég mun fjalla nánar um þegar við ræðum áætlunina hina smærri, þá sem tekur aðeins til áranna 2007–2010 en ég geri ráð fyrir að það verði gert í byrjun næstu viku.