133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

ráðstefna klámframleiðenda.

[15:06]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmann hvað það varðar að við viljum ekki að hinn svokallaði klámiðnaður nái fótfestu á Íslandi. Ég segi það fyrir mig, og tala þar áreiðanlega fyrir hönd annarra þingmanna og Íslendinga almennt, að ég hef óbeit á klámiðnaðinum og öllum afurðum hans. Flest venjulegt fólk hefur andstyggð á þeirri starfsemi sem honum tilheyrir, hvort sem það er vændi, mansal eða annað þess háttar, sérstaklega það sem snýr að illri notkun á börnum.

Nú er mér ekki ljóst hvort þeir aðilar sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni eru komnir hingað til lands til að stunda starfsemi af þessu tagi hér á landi. Mín persónulega skoðun sem ég var að lýsa og sem áreiðanlega flestir þingmenn deila getur hins vegar vart gefið tilefni til að hefta för þessa fólks nema ljóst sé að um ólöglegt athæfi af þess hálfu sé að ræða eða slíkt sé í uppsiglingu. Það er lögreglunnar að fást við slík mál og það hefur komið fram að lögreglan hefur tekið áskorun Stígamóta alvarlega og er með það mál til rannsóknar. Ég vænti þess að ef ólöglegt athæfi sannast með einhverjum hætti á þessa aðila eða áform um slíkt muni lögreglan grípa í taumana með viðeigandi hætti. Þannig er þetta mál vaxið eftir því sem ég best fæ séð, virðulegi forseti.