133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

einkavæðing Iðnskólans í Reykjavík.

[15:09]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Frá því hefur verið greint í fréttum þessa dagana, bæði í gær og í dag, að til standi að einkavæða Iðnskólann í Reykjavík, undirbúningur að því sé á fullu og til standi að færa rekstur þess skóla til einkafélags sem verði í eigu atvinnurekenda, þ.e. eins og gert er ráð fyrir að hálfu í eigu Landssambands íslenskra útvegsmanna og að hálfu í eigu Samtaka iðnaðarins.

Með þessum áformum stendur til að einkavæða einn stærsta framhaldsskóla landsins, með um 2.200 nemendum, með um 120 fastráðnum kennurum auk fjölda annarra starfsmanna.

Í fréttum er greint frá því að þessi áform hafi verið kynnt starfsmönnum skólans aðeins fyrir nokkrum dögum en samt eigi einkavæðingin að koma til framkvæmda á þessu ári. Það hefur einnig komið fram í fréttum nú, m.a. í dag, að samtök kennara innan skólans hafi andmælt þessu afdráttarlaust. Ég spyr því hæstv. menntamálaráðherra um áformin um þessa einkavæðingu, hvaðan þau séu komin, á hvaða stigi þau séu og hver framvinda þessa máls verði af hálfu ráðherra. Er það t.d. rétt að tekin hafi verið ákvörðun um það nú þegar að segja öllu fólki upp miðað við 1. maí? Hver er staða þessara áforma um einkavæðingu skólans? Ætlar ráðherra sér að einkavæða Iðnskólann á síðustu dögunum áður en hún hverfur úr embætti menntamálaráðherra við næstu kosningar?