133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

vaxtarsamningur fyrir Norðurland vestra.

[15:30]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Það er rétt hjá hæstv. iðnaðarráðherra að uppistaða atvinnulífsins á Norðurlandi vestra einkennist af frumgreinaatvinnulífi, þ.e. sjávarútvegi og landbúnaði. En það er ekki nóg með það, heldur hefur ríkið dregið saman í opinberum störfum á þessu svæði sem bætir að sjálfsögðu gráu ofan á svart. Það hefur ekki verið gengið til samstarfs við heimamenn. Skollaeyrum hefur verið skellt við öllu því sem frá heimamönnum hefur komið til þessa, með öðrum orðum hefur þetta svæði eins og mörg fleiri úti á landsbyggðinni og þá sérstaklega á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra verið vanrækt. Við það er ekki hægt að búa. Hugsanlega, frú forseti, má búast við að núna rétt fyrir kosningar komi einhver vottur af viðleitni en það er of seint í rassinn gripið því að íbúum á Norðurlandi vestra fækkar og fækkar eins og á Vestfjörðum. Það er til skammar að láta hlutina gerast þannig árum saman án þess að bregðast við.