133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

kjaradeila grunnskólakennara.

[15:40]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Hér var um beina skattahækkunartillögu að ræða. Það er alveg ljóst að það kom fram í máli hv. þingmanns. Við verðum þá að hafa það hugfast — ég vona að allir séu mér sammála um að við viljum ekki verkföll í grunnskólum landsins. Það þarf að skoða þessi mál upp á nýtt. Við viljum og við þurfum á góðum kennurum að halda í skólastarf okkar. Mestu og stærstu hagsmunirnir eru að hafa góða kennara. Til þess þurfum við að launa fólkinu vel en núverandi aðstæður bjóða ekki upp á það. Það þarf að endurskoða allt heila kerfið til að reyna að finna tækifæri til að hækka laun kennara út frá öðrum forsendum en gengið hefur verið út frá fram til þessa.

Ég hef hins vegar lagt mig í líma við það að reyna að koma til móts við tillögu frá Kennarasambandinu og ýmsum öðrum til að skoða m.a. kennaranámið heildstætt. Ég held að það sé brýnt að við tökum inn í þetta aukin tækifæri í kennaranámi, auknar kröfur til kennaranáms og skoðum það m.a. að lengja það eins og við höfum rætt áður í þessum þingsal.