133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[16:01]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég dreg þetta stórlega í efa. Þegar ákveðið var að fara út í Hvalfjarðargöngin með þessum hætti og innheimta veggjöld var það að mínu viti algjörlega bundið við þá framkvæmd eina, ekki að hægt væri að taka veggjaldið til þess að fjármagna hinar ýmsu vegaframkvæmdir.

Í þessu samkomulagi Vegagerðarinnar og Spalar er verið að tala um tvöföldun Hvalfjarðarganga, Vesturlandsveg um Kjalarnes og Sundabraut. Ég spyr hvort það eigi að fara að nota Hvalfjarðargöngin sem tekjustofn fyrir almenna vegagerð í landinu. Ég mótmæli svona löguðu og spyr ráðherra: Er hann sammála því að þetta sé gert, að Hvalfjarðargöngin séu notuð sem almennur tekjustofn? Ég held að það ætti frekar að stefna að því að fella þessi gjöld niður en að vera að nota þau sem tekjuöflun fyrir aðrar vegaframkvæmdir.

Ég spyr því ráðherra: Er hann sammála því að gjaldið í Hvalfjarðargöngin sé notað til almennrar fjáröflunar (Forseti hringir.) fyrir ný göng, fyrir breikkun vegar um Kjalarnes o.s.frv.?