133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[16:08]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar maður les samgönguáætlun hæstv. samgönguráðherra kemur manni í hug saga eftir Sigurð Nordal sem heitir Ferðin sem aldrei var farin. Hér er á ferðinni einhvers konar óskalisti, einhver stærsti kosningavíxill Íslandssögunnar í formi óskalista samgönguráðherra sem nú er að ganga til kosninga eftir 60, 70 daga, eftir 16 ára veru í samgönguráðuneyti Sjálfstæðisflokksins, sem er saga svikinna kosningaloforða í samgöngumálum, saga eilífra niðurskurða fyrr og áður boðaðra tillagna í samgöngumálum. Nú á að fara ferðina sem aldrei var farin.

Nú á að gera allt fyrir alla. Nú er hægt að kynna til sögunnar stóra og mikla samgönguáætlun þar sem á að verja tugum milljarða í vegabætur og fleiri framkvæmdir, allt sem var ekki hægt að gera á 16 ára vanrækslutímabili Sjálfstæðisflokksins í samgönguráðuneytinu. Hvernig eiga kjósendur, íslenska þjóðin, að trúa því, hæstv. ráðherra, að þetta eigi að ganga eftir í ljósi svikasögunnar? Er þetta ekki ferðin sem aldrei var farin?