133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[16:10]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Nú er hæstv. samgönguráðherra, frú forseti, á fleygiferð frá sínum eigin pólitíska óskalista. Það er eitthvert fólk úti í bæ sem bjó til samgönguáætlun. Þetta er að sjálfsögðu pólitísk forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og frá því getur hæstv. ráðherra ekki flúið nú þegar hann sér fram á það eftir umræðuna um þessa áætlun og hina lengri að það er ákaflega erfitt að taka mark á þessu.

Hitt sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra um er að þingmaðurinn fyrrverandi og frambjóðandi sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, Árni Johnsen, sem situr í 2. sæti á framboðslistanum í því kjördæmi og Vestmannaeyingur með meiru, sagði í Morgunblaðsgrein og fréttum Stöðvar 2 um helgina að það væri óboðlegt með öllu að ljúka ekki við rannsóknir á jarðgangagerð og hunsa þannig álit hinna og þessara sérfræðinga. Hæstv. ráðherra hefur sagt að það sé ekki á ferðinni, það eigi að fara í Bakka og við hljótum að túlka það sem endanlegan dauðadóm yfir gangahugmyndinni. Því hlýtur maður að spyrja: Hver er stefna hæstv. fjármálaráðherra, flokksbróður samgönguráðherrans? Og hver er stefna Sjálfstæðisflokksins í málinu? Er það kannski þriðja leiðin, önnur en Árna Johnsens, önnur en Árna Mathiesens? Hver er stefna sjálfstæðismanna í þessu stóra máli í kjördæminu?