133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[16:13]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til þess að þýfga hæstv. samgönguráðherra um efni sem var rætt hér fyrir helgi í tengslum við samgönguáætlun hina lengri sem gildir til 2018. Það er vegna hjólreiða- og göngustíganna.

Eins og kunnugt er þá er til umfjöllunar í samgöngunefnd frumvarp til vegalaga þar sem segir í 27. gr., með leyfi forseta:

„Í samgönguáætlun er heimilt að veita fé til almennra hjólreiða- og göngustíga meðfram umferðarmestu þjóðvegum samkvæmt sérstakri áætlun sem gerð skal að höfðu samráði við sveitarfélög.“

Í samgönguáætlun, hvort sem litið er til hinnar lengri eða styttri, eru akkúrat engir fjármunir til gerðar hjólreiða- og göngustíga. Hins vegar eru í þeirri áætlun sem hér um ræðir 240 milljónir til gerðar reiðvega.

Ég þekki það að auðvitað þarf að vera lagastoð fyrir fjárútlátunum en að því gefnu að bæði þessi mál fari í gegn fyrir þinglok þykir mér (Forseti hringir.) einkennilegt að ekki sé gert ráð fyrir neinum fjármunum til gerðar hjólreiða- og göngustíga í samgönguáætluninni.