133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[16:14]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það eru ekki sérstaklega eyrnamerktir fjármunir til göngustíga eða hjólreiðastíga í þessari áætlun. Nú er það þannig, eins og fram kom hjá hv. þingmanni, að það skortir lagaheimildir sem við gerum ráð fyrir að afla með breytingum á vegalögunum og um það er verið að fjalla í hv. samgöngunefnd.

Ég lít svo á að fyrst og fremst verði að huga að gerð hjólreiðastíga og göngustíga í tengslum við skipulagningu og breytingar á vegakerfinu og það eigi í framtíðinni að verða hluti af kostnaði við gerð vega að taka tillit og taka inn brautir fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Ég lít því svo á að í heildarfjármunum sem við höfum til ráðstöfunar til vegagerðar þurfi að taka (Forseti hringir.) tillit til framkvæmda við slíka stíga.