133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[16:15]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil hæstv. ráðherra þannig að það geti skoðast í hv. samgöngunefnd að við gerum þar tillögur eftir að hafa lokið umfjöllun um frumvarp til vegalaga og væntanlega afgreitt það þannig að hægt sé að gera breytingartillögu við samgönguáætlanirnar sem við munum hafa til umfjöllunar líka og gera ráð fyrir því að hægt sé að verja fjármunum til þessara framkvæmda. Ef svo er ekki gert þá sitjum við uppi með tvær langtímaáætlanir, þá lengri til 2018 þar sem ekki er gert ráð fyrir neinum fjármunum til slíkra framkvæmda og væntanlega á að leggja hér einhverja nýja vegi, nýjar stofnbrautir eða þjóðvegi og setja göngustíga og hjólreiðastíga meðfram þeim á næstu 10 árum. Ég sé því ekki annað, frú forseti, en við verðum að gera ráð fyrir því að það sé hægt, fyrir utan þær framkvæmdir sem þyrfti helst að fara í strax varðandi að leggja hjólreiða- og göngustíga meðfram þjóðvegum sem nú eru.