133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[16:26]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Virðulegi frú forseti. Hér hefur hæstv. samgönguráðherra mælt fyrir þingsályktun um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2007–2010. Ég tek heils hugar undir þau orð hæstv. ráðherra að ég held að þjóðin vilji raunverulegt stórátak í samgöngumálum, í vegamálum, í endurbótum á vegum vítt og breitt um landið. Ég held að hún vilji það. En ég held líka að þjóðin krefjist þess að fyrirheit um slíkt stórátak séu gefin af trúverðugleika, að áreiðanleika, að þjóðin geti vænst þess að staðið verði við þau fyrirheit. Þar held ég að sé vandinn hjá hæstv. ráðherra því eiginlega alveg sömu orð, nákvæmlega sömu meiningar sagði sami hæstv. samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, fyrir fjórum árum þegar verið var að leggja fram metnaðarfulla samgönguáætlun til næstu fjögurra ára, rétt fyrir kosningar, þá voru einmitt viðhöfð þau sömu orð, að þjóðin vildi stórátak í vegamálum. En hver varð svo raunin? Við höfum upplifað niðurskurð. Strax á fyrsta ári var niðurskurður á vegáætlun, niðurskurður í heildinni á tímabilinu einhvers staðar milli 6 og 7 milljarðar kr., símapeningar sem áttu að koma til vegaframkvæmda á þessu ári, árið 2007, sem gumað var af, voru líka skornir niður þannig að trúverðugleikinn, frú forseti, er ekki mikill hjá hæstv. ráðherra. Það er miður því enginn hefði viljað frekar en ég að ráðherra hefði staðið við vegáætlunina sem lögð var fram fyrir fjórum árum sem hefur síðan verið skorin niður. En þetta segir okkur enn frekar hversu brýnt það er að ráðist verði í stórátak í samgöngumálum á næstu fjórum árum en það gerist ekki undir forsæti núverandi samgönguráðherra. Ég held a.m.k. að þjóðin treysti honum ekki frekar en reynslan sýnir hvernig tekist hefur til á undanförnum fjórum árum þar sem niðurskurðinum hefur verið beitt.

Þau rök sem hæstv. ráðherra kom áðan með voru að fresta framkvæmdum og beita niðurskurði á framkvæmdum vegna þenslu í samfélaginu, það er alveg hárrétt. Ríkisstjórnin valdi að hvetja til og láta ráðast í stórframkvæmdir í stóriðjumálum og virkjunarmálum og sú var ástæðan fyrir því að fresta varð framkvæmdum í vegamálum. Enn er ríkisstjórnin uppi með sömu áform, það eru áform um stórvirkjanir í Þjórsá, það eru áform ríkisstjórnarinnar um stækkun álvers í Straumsvík, um nýtt álver í Helguvík, um álver á Bakka við Húsavík sem mun þegar það kemst í fulla stærð krefjast raforku úr jökulánum í Skagafirði, úr Skjálfandafljóti. Þetta allt er á framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar upp á fleiri hundruð milljarða kr. og með slíkri framkvæmdaáætlun í stóriðju- og virkjunarmálum verður ekki mikið úr vegagerð.

Það er því afdráttarlaus vilji okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að nú verði sett stóriðjustopp, það verði ekki farið í nýjar framkvæmdir, hvorki í stórvirkjanir né í stækkun eða ný álver. Það verði sett stopp. En í staðinn einhendi menn sér í stórátak í vegamálum og í samgöngumálum. Þetta er krafa okkar, ekki aðeins út frá hagsmunum þjóðarinnar, íbúanna út frá aukningu og bættum samgöngum heldur einnig vegna þess að þessi stóriðjustefna skaðar bæði náttúruna og efnahagslífið eins og við höfum orðið rækilega vitni að á undanförnum árum. En stóriðjustefnan, virkjunaræðið gengur ekki upp samtímis því að ætla að gera stórátak í vegagerð. Það hefur verið reyndin síðustu fjögur ár og það verður svoleiðis áfram.

Ég ætla aðeins að víkja að því sem ég minntist á í andsvari við hæstv. ráðherra um vegagerð, um Spöl. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra að einmitt undir forsæti Steingríms J. Sigfússonar samgönguráðherra, sem var sennilega með einum duglegustu og röskustu samgönguráðherrum sem við höfum haft, það heyrir maður a.m.k. sagt á Vestfjörðum, var ráðist í vegagerð við Hvalfjarðargöngin. En ég hef litið svo á að sú framkvæmd, sú ákvörðun að innheimta þar veggjald hafi verið tekin af illri nauð, fjárhagsvanda í þeirri stöðu sem var, en það væri algerlega bundið við að það gjald ætti að renna til að greiða niður göngin, kostnað við göngin eins og samkomulag var um. Það mætti ekki að taka gangagjaldið vegna Hvalfjarðarganga til að fjármagna aðrar framkvæmdir eins og nú virðist eiga að gera þar sem undirritað hefur verið samkomulag að því er virðist milli fulltrúa Spalar og Vegagerðarinnar um að verðgildi núverandi Hvalfjarðarganga verði hið sama til ársins 2018 en muni ekki lækka líkt og svigrúm hefði ella verið til eins og segir í ályktun eða áliti, með leyfi forseta:

„Með þessu hyggst Spölur safna fé til að geta borgað hluta af kostnaðinum við ný jarðgöng.“

Hérna er svo einnig lagt til að litið verði á þetta sem eina heild, þ.e. nýjan veg um Kjalarnes og Sundabrautin er líka nefnd í þessu sambandi. Þarna tel ég vera farið inn á stórhættulega braut og ég dreg í efa að þetta sé löglegt. Og hvort sem það er löglegt eða ekki þá er það siðlaust ef það á að fara að nota gjaldið um Hvalfjarðargöngin til að fjármagna aðrar framkvæmdir í vegamálum. Ég hefði hins vegar talið að það væri mun nær að leita leiða til að fella niður þetta gjald. Hvernig ætla menn að standa að því? Það er verið að tala um að setja vegi í einkaframkvæmd og láta einkaaðila fá að leggja veginn austur fyrir fjall frá Reykjavík en þar er ekki endilega verið að tala um að taka upp sérstakt veggjald. Með hvaða rétti ætla menn þá að halda uppi veggjaldi gegnum Hvalfjarðargöngin sem eru jú orðin hinn eiginlegi þjóðvegur?

Þess vegna spyr ég, frú forseti, í fyrsta lagi um lögmæti þessa og svo hvort ráðherra finnist það ekki vera siðlaust að nota veggjald um Hvalfjarðargöng til þess að fjármagna aðrar óskyldar framkvæmdir. Spölur var stofnaður utan um þessa afmörkuðu framkvæmd en ekki einhverjar aðrar framkvæmdir, ekki einu sinni ný jarðgöng og ekki heldur til að leggja veg um Kjalarnes sem þó er brýnt og ég er ekki að draga úr því. Þessar framkvæmdir eru brýnar, þ.e. nýr vegur um Kjalarnes og vafalaust er líka komið að breikkun Hvalfjarðarganganna en það á ekki að fjármagna með því að skattleggja þá sem fara um göngin nú.