133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[16:43]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að játa það að eftir yfirgripsmikla ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar er ég ekki miklu nær um raunverulegan vilja Vinstri grænna í samgöngumálum, hver eiginleg stefna þeirra er nema þeir vilja gera meira og þeir vilja gera betur. Mér finnst það vera nokkuð almenn stefna.

Hins vegar varði hv. þingmaður nokkuð drjúgum hluta ræðu sinnar í að fjalla um stóriðju. Hann lýsti því hvernig hitinn og þenslan í efnahagslífinu hefur orðið til þess að nokkrum samgönguframkvæmdum var frestað til að slá á þenslu. Hv. þingmaður fór miklum orðum um það hvernig ríkisstjórnin hefði með atvinnustefnu sinni — og rétt að minna hv. þingmann á að sú atvinnustefna er til þess að skapa verðmæti — leitt til frestunar á framkvæmdum. Gerði hv. þingmaður hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkana mjög ábyrga fyrir því.

Nú háttar svo til, virðulegi forseti, að í mínu kjördæmi fellur drjúgur hluti af Hellisheiðinni undir hið fagra Suðurkjördæmi. Eins og hv. þingmaður ugglaust veit er Hellisheiðin orðin svona eins og oststykki, sundurboruð vegna þess að þar er unnið að framkvæmdum vegna raforkuframleiðslu. Og hvert skyldi þessi raforka eiga að fara? Eins og hv. þingmaður ugglaust veit hefur verið gerður samningur á milli Orkuveitu Reykjavíkur og Alcans í Straumsvík sem ætlar að stækka. Hverjir stóðu að þeirri samþykkt hjá Orkuveitu Reykjavíkur? Það var stjórn Orkuveitunnar, m.a. með innan borðs fulltrúa Vinstri grænna, Tryggvi Friðjónsson held ég að hann heiti. Ég spyr því hv. þingmann: Er þá ágreiningur um þetta innan Vinstri grænna eða telur hv. þingmaður (Forseti hringir.) að Vinstri grænir beri enga ábyrgð?