133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[16:49]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason er kominn býsna langt frá umræðunni um vegamál. Engu að síður tengist það því að Framsóknarflokkurinn velur stóriðju (HjÁ: Ætlarðu að svara, Jón?) og virkjanaáform.

Varðandi það sem hv. þingmaður spyr hér um Orkuveitu Reykjavíkur var starfandi R-listi í Reykjavík sem var með meiri hluta. Ég er í sjálfu sér ekkert ábyrgur fyrir því hvað þar hefur verið gert eða samið um frekar en hægt er að draga einhverja aðra til slíkrar ábyrgðar sem eru ekkert þar með. (HjÁ: Bera Vinstri grænir ábyrgð? Svaraðu spurningunni.) Á ég að bera ábyrgð á R-listanum? Mér dettur það ekki í hug. (HjÁ: Vinstri grænir.) Vinstri grænir áttu þá aðild að R-listanum samkvæmt því samkomulagi sem þar var lagt upp (HjÁ: Stjórn Orkuveitunnar.) og stjórn Orkuveitunnar, eins og hv. þingmaður segir.

Ég greiddi ekki atkvæði með stækkun á álverinu á Grundartanga, taldi vera nóg komið. Ég studdi ekki það sem framsóknarmaðurinn ætlaði að keyra hvað harðast hér í gegn, Norðlingaölduveitu, (Gripið fram í: En Húsavíkurlistinn?) til þess að gera áfram þar.

Af því að hv. þm. Hjálmar Árnason veltir því fyrir sér, vill Hjálmar Árnason taka ábyrgð á (Forseti hringir.) virkjanastefnu Framsóknarflokksins í Skagafirði sem leggur mikla áherslu á að fá að virkja jökulárnar í Skagafirði fyrir álver á Húsavík? Vill hv. þm. Hjálmar Árnason taka ábyrgð á því?

(Forseti (SAÞ): Forseti beinir því til þingmanna að stunda ekki samræður hér við þann sem er í ræðustóli og hefur orðið.)

Það er alveg hárrétt, frú forseti, og framsóknarmönnum líður illa af stóriðjustefnu sinni en hún fylgir þeim.

Þetta allt samt hefur áhrif á það að maður getur ekki bæði fjármagnað vegi, stórátak í vegamálum, og líka staðið fyrir einhverri stóriðjustefnu og stórframkvæmdum upp á fleiri hundruð milljarða kr. í stóriðjumálum. Þetta er bara sú staðreynd. Ég og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði viljum segja stopp við frekari stóriðju og nú gerum við stórátak í vegamálum. Það er það mikilvægasta sem á að ráðast í.