133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[16:59]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil fyrst segja það sem fram kom í ræðu minni hér fyrir helgi að ég tel að með þessari samgönguáætlun og eins með langtímaáætlun sé of lítil áhersla lögð á að ljúka við hringveginn, sem er yfirlýst markmið okkar sjálfstæðismanna að gert skuli og hefur verið samþykkt á landsfundum í 12, 14 ár að við eigum að setja okkur markmið í þeim efnum. Auðvitað ber þessi samgönguáætlun keim af því og ég hlýt að gagnrýna það.

Ég hlýt einnig að vekja athygli á því að verið er að stytta leiðir víðs vegar um landið og þá kemur tvennt fyrst upp í hugann úr því að ég talaði um hringveginn og horfði til þess hluta landsins, að óhjákvæmilegt er að svo fljótt sem auðið er verði lagður vegur úr Langadal og Svínvetningabraut. Þetta er leið sem hæstv. samgönguráðherra hefur lagt áherslu á í þinginu hvað eftir annað og ég álít að það sé kominn tími til að standa við það, líka vegna þess að vegurinn frá Blönduósi upp Langadal er gamall og slitinn orðinn og nauðsynlegt að byggja hann upp, nema ráðist verði í þessa vegstyttingu á Svínvetningabrautina. Þetta hvort tveggja fer saman.

Hins vegar er það Öxi. Öxi er að vísu ekki á hringveginum en Öxi styttir leiðina um 60 km þegar farið er til Egilsstaða og vegna þess að áhersla hefur verið lögð á það af hæstv. samgönguráðherra og ýmsum öðrum hversu gott það sé að færa byggðir saman vil ég minna á að verið er að tala um það nú að Djúpivogur og Fljótsdalshérað verði að einu sveitarfélagi, sem auðvitað kallar á veginn um Öxi. Þetta hvort tveggja, styttingin í Langadal eru 16–17 km og 60 km í Öxi, eru nauðsynlegar styttingar á þessari leið hringinn í kringum landið.

Ég vil einnig vekja athygli á því og beina því til formanns samgöngunefndar þar sem gert er ráð fyrir brúarbyggingum í Skriðdal á árinu 2010 sýnist mér sem vanta muni upp á að fé nægi til að leggja vegina að brúnum en lítið gagn er að brúm án vega.

Ég vil enn fremur leggja áherslu á, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, að verulegt fé er ætlað til styrkinga og endurbóta og ég álít að nefndin þurfi að árétta og taka skýrt fram að tími sé kominn til þess að styrkja veginn milli Akureyrar og Reykjavíkur og breikka hann þannig að hann hafi fullan burð og nái sem víðast 8,5 m að minnsta kosti. Í þessu sambandi vil ég sérstaklega tala um veginn um Kræklingahlíðina næst Akureyri. Þar er mikil umferð og slysatölur sýna að tími er til þess kominn og það fyrir löngu að sú leið sé gerð öruggari, en ég sé ekki að gert sé ráð fyrir því í samgönguáætlun að að því sé hugað en á hinn bóginn mikið talað um öryggismál í umferðinni.

Mér varð það á þegar ég var að ræða um langtímaáætlun að segja að ekki væri gert ráð fyrir frekari framkvæmdum innan þjóðgarða í langtímaáætlun. Þetta er ekki rétt hjá mér, það var þarna skotið á milli dálka „þjóðgarðsvegir“ sem ég ekki tók eftir, 800 milljónir á öðru tímabili og 600 milljónir á hinu þriðja. Undir þessum titli, þjóðgarðsvegir, hafa verið þrír vegir, það eru Uxahryggir, það er vegurinn fyrir Snæfellsjökul og það er Jökulsárvegur eða Dettifossvegur réttara sagt. Á öðru tímabili eru 800 milljónir kr. ætlaðar í þjóðgarðsvegi. Það rétt dugir til að ljúka veginum frá hringvegi niður í Kelduhverfi, rétt dugir, kannski 10 milljónum of mikið, sem er innan allra skekkjumarka. Þar sem við erum að tala um Vatnajökulsþjóðgarð tel ég óhjákvæmilegt að þær fjárhæðir verði markaðar Dettifossvegi. Raunar hefði ég kosið og óskað eftir að í skammtímaáætlun yrði bætt við nægilegu fé til að hægt yrði á næstu fjórum árum að koma veginum upp í Hljóðakletta sem væri staðfesting á því að þingheimur vildi virkilega Vatnajökulsþjóðgarð og staðfesting á því sem menn hafa við mig sagt sem með mér hafa farið þessa leið að hún sé til skammar.

Ég vil fagna því sérstaklega að bundið slitlag verður lagt á veginn til Kópaskers nú á þessu sumri. Ég hafði reynt að ýta á það fyrr að farið yrði í þá vegagerð vegna þeirra tafa sem orðið hafa á veginum um Hófaskarð, en það var því miður eins og að kalla í klettinn, ekkert svar, en nú loksins er svo komið að fallist hefur verið á að vegurinn sé boðinn út og það verði gert nú á næstu dögum og er það í samræmi við heilbrigða skynsemi og rétta framkvæmd að menn reyni að skjóta til fjárhæðum og nýta það fjármagn sem til veganna er lagt.

Að síðustu hlýt ég, formaður samgöngunefndar, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, að beina því til nefndarinnar hvort ekki sé unnt að flýta því að vegurinn um Hólmaháls verði boðinn út, hann er tilbúinn í útboð. Þetta er orkuvegur. Hann kostar um 500 millj. kr., 94 milljónir eiga að renna til hans á næsta ári, 406 milljónir eftir tvö ár. Það er víða svo um mitt kjördæmi að fjárveitingar berast ekki fyrr en kannski einu eða tveim árum eftir að framkvæmd lýkur. Skil ég raunar ekki hvernig á því megi standa, t.d. um Skjöldólfsstaðamúlann, hvers vegna síðasta fé sem til hans rennur skuli vera eftir tvö ár þegar verið er að bjóða verkið út nú. (Gripið fram í.) Ég skrifaði ekki niður þær tölur. Ég mundi mjög gjarnan vilja, hv. þingmaður, að athugað yrði í nefndinni hvort ekki sé hægt að flýta því að bjóða Hólmaháls út þannig að það verði gert nú á þessu ári. Segja má að nokkuð ljóst sé að ekki verði hægt að ráðast í sumar framkvæmdir vegna deilna sem upp koma, jafnvel deilna milli opinberra stofnana, og þá er spurning hvernig best sé að nýta féð. Ég hef óskað heftir því — gerði það með þingmönnum kjördæmisins í morgun — við vegamálastjóra að þetta mál yrði sérstaklega athugað.