133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[17:08]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér er ljúft að svara þessu. Ég er mjög ánægður yfir því að Akureyrarflugvöllur skuli vera inni á samgönguáætluninni, ánægður yfir því og þakklátur, það var brýnt að lengja flugvöllinn. Auðvitað hefði verið óskaplega gott ef búið væri að lengja flugvöllinn, má eins spyrja hvort hv. þingmaður sé ekki ánægður með að hann skuli ekki hafa verið lengdur fyrir tíu árum. Aðalatriðið í mínum huga er að búið er að ná þessum áfanga, það verður ráðist í lengingu flugvallarins og síðan kemur að því að búa flugvöllinn fullkomnum tækjum, eins og ég veit að við báðir viljum gera.