133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[17:09]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég er ekki ánægður með að framkvæmdum skuli ekki ljúka fyrr en svona seint vegna þess sem ég hef áður sagt. Þetta er samkeppnishindrandi fyrir þá fraktflutninga sem eiga að fara frá þeim velli. Fyrirtæki sem hefur stofnað fraktflutningafélag og ætlar að flytja m.a. ferskan fisk frá Akureyrarflugvelli þarf að gera það þannig að fulllesta vélina af fiski og fljúga suður til Keflavíkur, millilenda þar og taka eldsneyti til að geta flogið til Evrópu. Ég er ekki ánægður með það, virðulegi forseti, að þetta sé ekki fyrr en haustið 2009, eins og hv. þm. Halldór Blöndal er.

Ég hef aðra spurningu varðandi þetta svæði vegna þess að það er okkur mjög kært, mér og hv. þm. Halldóri Blöndal: Er hv. þingmaður ánægður með það að ekki skuli vera minnst á stækkun flugstöðvarinnar á Akureyrarflugvelli?