133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[17:26]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að eftir þessa löngu stjórnarsetu bíða verkefnin um allt land. Þau eru óþrjótandi. Þess vegna erum við að tala um að tími sé kominn til að gera stórátak í samgöngumálum. Hefðu samgöngumálin verið í þessum forgangi væri kannski ekki sama þörfin.

Það er eðlilegt að við fögnum því að umræðan um samgöngumál, ég tala nú ekki um jarðgangamál, er komin á það stig að það er hægt að ræða þau út frá allt öðrum forsendum en áður var. Ég endurtek að ég fagna því alveg sérstaklega.

Ég verð hins vegar að segja að ég átta mig ekki alveg á því hvernig á því stendur að það þarf tvö heil ár, þ.e. bæði 2007 og 2008, til að rannsaka Norðfjarðargöngin ein og sér. Ég hefði ekki talið að svo langan tíma þyrfti til þess.

Ég vek athygli samgöngunefndar á því að það mál verði skoðað alveg sérstaklega, þ.e. hvort ekki sé hægt að flýta þessu útboði og ég vitna enn í ummæli hæstv. ráðherra um að hægt sé að bjóða út hluti án þess að fjármagn sé tryggt á þeim sama degi. Hugsanlega má brúa það bil á annan hátt.

Það er líka hárrétt hjá hæstv. ráðherra, og þess vegna vakti ég einmitt athygli á því, að hugmyndir um tengingu byggða á Miðausturlandi kalla á að þeim rannsóknum verði flýtt sem verða má þannig að hægt sé að komast að sem skynsamlegastri niðurstöðu og einnig, eins og hæstv. ráðherra benti á, að ekki sé byggt fyrir þau svæði þar sem menn telja eðlilegt að jarðgöngin komi.

Það liggur á þessum skipulagsmálum. Þess vegna er brýnt að rannsóknunum verði hraðað eins og kostur er og að við komum því þar af leiðandi inn að það sé framtíðarhugmynd, sem er vonandi enn styttri en margur heldur, að við gjörbreytum samfélaginu á Miðausturlandi með þeim göngum sem nauðsynleg eru til þess að öll byggðarlögin þar fái að njóta (Forseti hringir.) sín.