133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[17:29]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég ræddi þessi mál í allítarlegu máli þegar langtímaáætlunin var á dagskrá fyrir helgina og ég vísa til þeirra fyrirvara og þeirrar gagnrýni sem ég setti fram þá á ýmislegt varðandi m.a. vinnubrögð og skort á samráði og öðru slíku og eyði ekki tíma í að fjölyrða meira um það.

Í fyrsta lagi vil ég um flugmálin segja, að þó að það sé góðra gjalda vert að þar glittir í löngu tímabærar framkvæmdir við Akureyrarflugvöll — þ.e. að lengja brautina og gera þann flugvöll þannig úr garði að það sé með viðunandi öryggi hægt að reka þaðan áætlunarflug, farþegaflug og fraktflug, sem ég held að sé nú alveg sýnt að full þörf er fyrir og markaðslegar forsendur eru til staðar fyrir ef aðstæðurnar eru bættar — þá er gallinn auðvitað sá að þar er um að ræða hina svokölluðu sérstöku fjáröflun sem ekki er í hendi og í rauninni bara gefinn upp boltinn með að það geti verið allt hvað verkast vill, einkafjármögnun, lántaka eða eitthvað annað. Það yrði auðvitað dálítið kúnstug niðurstaða ef síðustu 700 metrarnir á flugbraut væru í einkaframkvæmd en afgangurinn, þeir tvö þúsund eða tæpir sem fyrir eru, væru opinbert mannvirki. Yrði þá tekinn flugtollur á endanum sem bættist við? Ég held að það hefði bara einfaldlega átt að taka um það ákvörðun að í þá framkvæmd yrði ráðist og setja þá inn fjárveitingar með hefðbundnum hætti til hennar.

Það væri ákaflega praktískt að vinna saman lengingu Akureyrarflugvallar og gerð Vaðlaheiðarganga því að ljóst er að það mætti koma fyrir verulegum hluta af kjarnanum úr göngunum Eyjafjarðarmegin með þeim hætti sem yrði ákaflega praktískur bæði frá framkvæmdinni séð og umhverfislegu tilliti.

Varðandi Egilsstaðaflugvöll er náttúrlega enn lengra inni í framtíðinni að framkvæmdir komist þar af stað og um þær búið með svipuðum hætti, því miður ekki fyrr en á öðru og þriðja tímabili langtímaáætlunar.

Um vegáætlun gildir aftur það sama að þar eru stór verkefni sett í hina svokölluðu sérstöku fjármögnun og þar eru á ferð stór loforð sem ekki er þar með ljóst hvernig reiðir af. Ég hef líka sagt að mér finnst því miður verulega á skorta að einfaldlega miði nógu hratt í hinni almennu vegagerð. Það eru t.d. mikil vonbrigði að sjá að hringvegurinn mun ekki klárast samkvæmt þessu, ekki bara á þessum fyrstu fjórum árum heldur í raun á öllu tímabili þessarar langtímaáætlunar, ef ég hef séð rétt, þ.e. ekki verður kominn á samtengdur vegur yfir Öxi eða Breiðdalsheiði, ekki í Lóninu og malarkaflar verða áfram á meginleiðum eins og norðausturleiðinni, t.d. á Langanesströnd, a.m.k. lengi vel framan af áætlunartímabilinu. Það eru ósköp einfaldlega gríðarleg verkefni eftir í almennri vegagerð. Má ég þá minna á að drjúgir kaflar á hringveginum þarfnast nú endurbyggingar, þ.e. þeir eru einfaldlega ekki byggðir miðað við þann staðal og þann burð sem þarf til að þola þungaflutninga nútímans. Jafnvel þó svo að ný ríkisstjórn byði nú út með myndarskap strandsiglingakerfi og það tækist að koma einhverju af þungaflutningum af vegunum og á sjóinn, þar sem þeir eiga auðvitað betur heima, þá verða áfram miklir flutningar á landi, það er augljóst mál, og vaxandi umferðarþungi kallar á úrbætur.

Það er einn vegaflokkur sömuleiðis sem ég tel að menn verði að setja stóraukinn kraft í byggja og það eru tengivegir. Til dæmis er það þannig á Norðurlandi meira og minna öllu, og vissulega eru fleiri svæði sem búa við slíkt, en ég held þó að Norðurlandið hafi þarna nokkra sérstöðu vegna hinna gríðarlega löngu dala sem iðulega eru þannig að vegir eru með báðum hlíðum, a.m.k. einn vegur fram slíka dali frá þjóðveginum eða þá út á nes eins og á við um Norðurland vestra, t.d. Vatnsnes og Skaga. Þarna eru gríðarlega miklir og langir malarvegir, 30–40 og upp í 60–70 ára gamlir sem hafa í besta falli fengið svona sæmilegt viðhald en með fáum undantekningum eru þetta vegir á þeim aldri að þeir þola náttúrlega ekki á nokkurn hátt nútíma flutninga og umferð. Það er gríðarmikið verkefni af þessu tagi sem bíður og sáralítið miðar með á Norðurlandi vestra, á Norðurlandi eystra og auðvitað víðar um land. Ég hygg nú að Norðurlandið, eins og ég segi, og kannski að einhverju leyti Austurland hafi þarna umtalsverða sérstöðu.

Ekki verður undan því vikist að ráðstafa umtalsverðum fjármunum og að mínu mati meiri fjármunum en þarna eru settir í hin almennu vegagerðarverkefni á landsbyggðinni ef menn ætla ekki að sætta sig við að þó nokkuð mikið verði eftir af þeim verkefnum þegar áætlunartímabili langtímaáætlunarinnar lýkur, hvað þá þeim fjórum árum sem hér eru undir.

Ég vil síðan nefna aðeins einstök mál önnur eins og Ólafsfjarðarmúla, jarðgöng þar. Það er að mínu mati óumflýjanlegt að taka lagfæringar á þeim inn í áætlun. Gera þarf könnun á því hvernig á að standa þar að verki. Kannski má tvískipta henni þannig að gera brýnustu úrbætur strax. Þar er stórvarasöm blindbeygja í norðurendanum sem þarf að taka af og auðvitað styttist í að þau þurfi að tvöfalda. Þau eru barn síns tíma, búin að þjóna hlutverki sínu vel í 16 ár eftir nokkra daga. Þess vegna er alveg ljóst að miðað við þann undirbúning og þann tíma sem þarf í að leggja grunn að því sem þarna verður gert verða þau kannski orðin 20–25 ára gömul áður en ráðist verður í eiginlegar framkvæmdir. Með tilkomu Héðinsfjarðarganga mun umferð þarna auðvitað stóraukast og það verður enn tilfinnanlegra að hafa Ólafsfjarðarmúlagöngin eins og þau eru úr garði gerð.

Norðfjarðargöng eru auðvitað gríðarlega brýn. Enginn vafi er á því í mínum huga að byggðapólitískt séð eru þau brýnust allra ganga eystra, en þó verð ég náttúrlega að segja að mér finnst sárt að sjá ekki jarðgöng undir Hellisheiði eystri einnig á áætluninni. Ég tel það í raun miklar brigður frá því sem alltaf hefur verið gert ráð fyrir, að þau yrði göng númer — ja, lengst af var nú tekist á um það hvort þau ættu að vera göng númer eitt eða tvö á Austurlandi. Þau hafa þurft að sæta því að þoka undan öðrum og ég hefði talið að menn ættu að hafa þau þarna inni áfram, enda augljóst mál að þeirri miklu fjárfestingu sem fólgin er í uppbyggingu norðausturleiðarinnar með ströndinni allt úr Ljósavatnsskarði og um Vopnafjörð, lýkur auðvitað ekki. Hún er ekki fullkláruð fyrr en komin eru jarðgöng undir Hellisheiði eystri. Þá er líka komin þar leið með byggð og með sjó og sem þræðir byggðakeðjuna sem er á margan hátt miklu betri flutningaleið og öruggari vetrarleið en að fara yfir öræfin, þó að það hafi að vísu gengið betur en bjartsýnustu vonir stóðu til vegna þess hversu vetur hafa verið mildir að undanförnu.

Eitt er víst og það er það, virðulegur forseti, að ærin eru verkefnin og þau verða ekki unnin nema til þess komi fjármunir. Þeir eru vissulega miklir sem frá umferðinni renna í opinbera sjóði og ég held að það sem þurfi að tryggja sé að umferðin fái til sín það sem þarf í þessar nauðsynlegu úrbætur og vegaframkvæmdir og samgönguframkvæmdir haldi fyllilega þeim hlut af þjóðartekjum sem (Forseti hringir.) hann hefur bestur orðið.