133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[17:39]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það kvað nú ekki meira við annan tón í ræðu minni nú frá því sem var fyrir helgi en svo að ég vísaði einmitt til þess í upphafi að ég hefði komið þar með ýmiss konar gagnrýni á framfæri og þyrfti ekki tímans vegna að endurtaka það.

Ég held að fróðlegt væri fyrir hv. þingmann — ég að sjálfsögðu skorast ekki undan að svara — að spyrja sinn eigin flokksbróður og hæstv. samgönguráðherra að þessu. Ég sé nú ekki annað en að þessi vegáætlun sé gerð þannig úr garði að hún horfi til styttingar á núverandi þjóðvegi 1 þar sem þeir möguleikar eru til staðar og væntanlega er það þá ekki í þeim anda sem hv. þm. Kjartan Ólafsson vill að menn fari með veg um Kjöl og þvert fyrir friðlandið í Guðlaugstungum og niður í Skagafjörð. Ég hef áður opinberlega látið efasemdir mínar í ljós um þá framkvæmd. Ég tel að það orki mjög tvímælis að fara af stað með þeim hætti, hvað varðar það fyrirkomulag sem þar er ætlunin að hafa, að loka Kjalvegi hinum forna og fara að selja einkaaðila í hendur leyfi til að taka þar veggjald. Ég er hræddur um að það verði ekki mjög vinsælt, fyrir utan að um slíka vegagerð uppi á miðhálendinu hef ég grundvallarefasemdir.

Vandinn er sá, hv. þingmaður, eins og ég hélt að við hefðum rætt en greinilega ekki með tæmandi hætti síðast þegar við áttum orðaskipti um samgöngumál, að það verða engar barbabrellur framkvæmdar með því að láta einkaaðila fá einkaleyfi til að rukka vegtoll eða fá áskrift að greiðslum úr ríkissjóði í formi skuggagjalda. Það eru bara sömu tveir aðilarnir sem borga fyrr eða síðar með einum eða öðrum hætti, það er umferðin sjálf eða skattgreiðendur. Við eigum því ekki að reyna að vera uppi með neinar sjónhverfingar í þessum efnum heldur leita hagkvæmustu leiða. Við vissar aðstæður eins og þær sem voru til staðar á sínum tíma varðandi Hvalfjarðargöng, eins og segja má að séu til staðar varðandi Vaðlaheiðargöng, þar sem býðst stytting en menn eiga hjáleiðina færa, (Forseti hringir.) þá getur slík ráðstöfun vel komið til greina, enda sé hún á þeim grunni sem Hvalfjarðargöngin eru, að þetta verði hluti af almenna samgöngukerfinu þegar framkvæmdin hefur borgað sig.