133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[17:50]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum samgönguáætlun hina styttri, til fjögurra ára. Þar er af nógu að taka eins og í hinni sem áður var rædd.

Mig langar í upphafi máls að tala aðeins um bundið slitlag og vegi með bundnu slitlagi. Það er rétt að krafan er að vegir séu almennt lagðir bundnu slitlagi hvar sem er á landinu. Samt er það svo að sum landsvæði eins og norðausturhornið og Vestfirðir búa enn þá við mikinn fjölda kílómetra af vegum sem ekki eru lagðir bundnu slitlagi. Horft er til þess að gera þar verulegt átak í vegaframkvæmdum, sem menn höfðu reyndar gert sér vonir um að unnar yrðu hraðar og ekki frestað eins og gert var á síðasta ári. Það er önnur saga en menn þóttust vera að hafa sérstök áhrif á þenslu hér á landi með því að fresta vegagerð á þeim landsvæðum þar sem engin þensla hefur verið mælanleg, eins og á Vestfjörðum og norðausturhorninu og þar sem byggðaskýrslur sýna að er hvað mest fólksfækkun hér á landi svo dæmi sé tekið.

Það er einnig athyglisvert að vegir innan sveita eru einnig langflestir, á þeim landsvæðum sem ég nefndi, með malarlagi enn þá og má segja að það sé kannski aðeins á suðvesturhorni landsins, þ.e. að hluta til í sveitunum á Suðurlandi, sem búið er að binda vegi með bundnu slitlagi þó að það sé vissulega af nógu að taka þar einnig. Það er fjöldamargt annað en stofnvegirnir sem taka þarf á varðandi endurbyggingu og uppbyggingu vega með nútímalegu sniði. Sífellt færri kunna að bregðast við í akstri á malarvegum og við sjáum að þeir sem lengstum hafa ekið á bundnu slitlagi bregður oft mjög þegar þeir þurfa að aka á þjóðvegum og akstursleiðum sem ekki eru með bundnu slitlagi og kunna kannski ekki að bregðast við því. Það á t.d. við um ferðamenn sem hingað koma í sívaxandi mæli á hverju ári og við ætlum vissulega að bjóða ferðamönnum að ferðast um landið og þarna er auðvitað ein af þeim hættum sem mæta þeim þegar þeir aka á vegum sem þeir kunna illa að bregðast við. Það á vissulega líka við um Íslendinga sem sjaldan aka á malarvegum. Þetta eru svona almenn inngangsorð, hæstv. forseti, en nauðsynlegt að vekja athygli á þessu.

Mig langar að víkja að einu atriði sem ég hef m.a. bent á á fundum á Norðurlandi vestra og það er þverunin yfir Hrútafjörð. Krafa hefur verið um það frá heimamönnum að þverunin yfir Hrútafjörð og ný brú þar sé eins utarlega eða norðarlega á leirunum og mögulegt er til að stytta vegalengdir milli Stranda annars vegar og þeirra sem austan við Hrútafjörð búa hins vegar. Þar eru líka þjónustusvæði fyrir byggðirnar á innanverðum Ströndum. Ég hef litið svo til að það væri í rauninni mjög áhugavert að færa veginn yfir Hrútafjörð eins norðarlega og mögulega væri hægt. Hvers vegna hef ég lagt áherslu á það? Það er m.a. vegna þess að ef við lítum á vegalengdir og möguleika á akstursleiðum frá Norðurlandi til Reykjavíkur, sérstaklega á það við þegar veður eru vond og færð erfið um Holtavörðuheiði, þá er stundum mjög auðvelt að fara Laxárdalsheiðina. Eftir því sem við færum hinn nýja veg, sem á hvort eð er að gera yfir Hrútafjörð, norðar á leirurnar styttum við vegalengdina fyrir þá sem koma frá Akureyri og ætla til Reykjavíkur og þurfa einhverra hluta vegna, vegna veðuraðstæðna eða annarra aðstæðna, að komast leiðar sinnar. Þá gætu menn farið Laxárdalsheiði og væntanlega verður hún einhvern tíma lögð bundnu slitlagi í framtíðinni en þar er um veg að ræða sem er miklu lægra yfir sjó en Holtavörðuheiðin. Það er oft hægt að fara yfir Laxárdalsheiði þó að menn bíði í röðum eftir að fara Holtavörðuheiðina og komist ekki yfir hana. (KÓ: En þá er Brattabrekkan.) Já, Brattabrekkan, ég veit alveg um hana en það er líka til vegur sem heitir Heydalur og er enn þá vestar, þannig að ef menn þurfa nauðsynlega að komast sína leið þá komast þeir hana í stað þess að bíða kannski í sólarhring í Staðarskála eða í Hrútafirði. Ég hef verið að benda á þetta.

Brattabrekka er, eins og hún er lögð nú, ekki lengur brött brekka heldur með 6–7 gráðu halla og mjög góður vegur. Hún er oft fær, hygg ég, og jafnvel stundum þegar Holtavörðuheiði er ófær. Það er einfaldlega vegna þess hvernig veður eru í Hrútafirði og hinn sterki norðan- og norðaustanstrengur sem liggur inn allan Hrútafjörð og yfir á Holtavörðuheiði. Auðvitað getur hann líka legið yfir Laxárdalsheiði og yfir í Hvammsfjörð og það þekkja þeir sem þar hafa ekið um. Ég vil benda á þetta og tel að það sé áhugavert upp á framtíðina að gera að horfa til þessa.

Hæstv. forseti. Ég sé að tíminn flýgur frá mér og ég kemst mjög lítið áfram í því að rökræða um einstök svæði en það er nauðsynlegt að gera undir fjögurra ára áætluninni. Ég bendi t.d. á að 23 snjóflóðasvæði eru skráð á Óshlíðinni. Guð láti gott á vita ef við ætlum að leysa þann vanda, sem við erum búin að eyða 900 milljónum í viðhald á undanförnum árum, með því að gera þar jarðgöng sem væntanlega munu verða mjög viðhaldslétt eins og þau jarðgöng sem þegar hafa verið gerð. Ég nefni Vestfjarðagöngin með 82 millj. kr. viðhald á 10 árum og Hvalfjarðargöngin með 175 millj. kr. viðhald með öllum þeim akstri sem þar er síðan þau voru tekin í notkun, fyrir utan það umferðaröryggi sem við fáum með gerð jarðganga og styttingu leiða á milli svæða.

Einn af þeim þáttum sem ég ætla að víkja að í næstu ræðu minni er tenging byggðanna og hvernig hægt er að efla byggðina og tengja m.a. suðurhluta Vestfjarða og norðurhlutann þannig að þar verði um samfellt þjónustu- og byggðasvæði að ræða sem getur hæglega orðið með því að standa þar rétt að hlutunum. Einnig er hægt að leggja veg úr Ísafjarðardjúpi og undir Kollafjarðarheiði og tengja þannig saman væntanlega splunkunýjan veg eftir þrjú, fjögur ár sem liggur yfir firðina og inn Kollafjörð í Djúpi og hins vegar nýjan veg fyrir Reykjanes og Vatnsfjörð til Ísafjarðar. Þegar þessar leiðir verða orðnar klárar vantar aðeins að komast þarna á milli til þess að vera á (Forseti hringir.) láglendisvegi til Reykjavíkur og einhver hefði nú ekki trúað því fyrir 50 árum að það væri hægt.