133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[18:11]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til þess að hægt sé að segja að eitthvað hafi verið svikið þá þarf að liggja fyrir að einhverju hafi verið lofað. Það var tekin ákvörðun um að hefja framkvæmdir við endurbyggingu Suðurstrandarvegarins og síðan er tekin ákvörðun um það á Alþingi í hvaða áföngum það er gert. Þannig að það er ekkert svikið. Við erum að taka ákvörðun um það núna að taka næsta áfanga.

Hvað varðar samgöngur við Vestmannaeyjar þá liggur það fyrir að ef við förum í að rannsaka jarðgöng sérstaklega þá munum við að sjálfsögðu stöðva aðrar rannsóknir. Við getum ekki gert ráð fyrir öðru en það verði að velja annaðhvort fjöruna eða göngin. Ef við ætlum að stöðva það þá er árs frestun á öllu heila ferlinu.

Bakkafjörurannsóknin og undirbúningurinn er í fullum gangi. Ég geri ráð fyrir því að í marsmánuði liggi fyrir upplýsingar þannig að hægt sé að taka ákvörðun. Ef við mundum stoppa það núna og setja peninga í rannsóknir vegna jarðganga, þá er það ákvörðun um að tefja og seinka öllu þessu ferli. Það er alveg nauðsynlegt að hv. þingmenn átti sig á þessu. Við getum ekki gert hvort tveggja.

Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hefði því getað tekið afstöðu til þessa máls og lagt meiri áherslu á jarðgöngin með því að greiða atkvæði gegn því að við settum af stað rannsóknir og undirbúning vegna Bakkafjöru. Það hefði verið hin eðlilega afstaða þingmannsins, að gera þar upp á milli, forgangsraða. Leggja sína áherslu í málið.