133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[18:24]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fjárfestar — og nú vil ég biðja hv. þm. Ögmund Jónasson að hlusta — ég held að væntanlegir fjárfestar sem vilja leggja fjármuni sína í einkaframkvæmd hafi uppi alveg sömu sjónarmið og þeir sem reka lífeyrissjóðina. Þeir vilja hafa eitthvað fyrir sinn snúð, þeir vilja ávaxta sitt pund í þágu tiltekins verkefnis, lífeyrissjóðirnir í þágu þess verkefnis að halda uppi öruggri ávöxtun á eignum lífeyrissjóðanna og svo vilja þeir sem eiga fjármuni og vilja fjárfesta í framkvæmdum fá eitthvað fyrir sitt með sama hætti. Ég held að það sé ekkert óeðlilegt og engin ástæða til að gera það neitt tortryggilegt.

Ástfanginn unglingur fer yfirleitt varlega og er hikandi þannig að mér líkaði ágætlega þessi samlíking. Ég hef að sjálfsögðu tekið þessu öllu með tilteknum fyrirvörum. Ég fagna því hins vegar að til séu aðilar sem eru tilbúnir að fara út í einkaframkvæmd og feta þannig í fótspor þeirra sem lögðu grunninn að einkaframkvæmd á Íslandi sem var gert með Hvalfjarðargöngunum. Ég tel að Hvalfjarðargöngin séu svo gott dæmi í langflestum atriðum að við eigum að horfa til þess. Eini gallinn var sá að í upphafi var vegna reynsluleysis gengið of langt í því að tryggja ávöxtun og þar kemur einmitt að því sem hv. þingmaður gerði tortryggilegt, að ávöxtunarkrafan hjá eigendum Spalar var allt of há. Þeim var gefið allt of mikið eftir í samningum með ávöxtunarkröfuna eins og að hafa ávöxtunina fullverðtryggða, hlutaféð var fullverðtryggt og ríkið tók að sér (Forseti hringir.) að bera ábyrgð á arðgreiðslunum. Þar var gallinn og við ætlum ekki að fara þá leið.