133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[18:30]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum eflaust sammála um ýmsa þætti en um eitt erum við ekki sammála, að tala eigi af lítilsvirðingu um ríkisstarfsmenn með haka og skóflur sem lögðu vegi fyrr á tíð. (Samgrh.: Það var ekki af lítilsvirðingu gert.) Nei, en var eitthvað slæmt eða athugavert við það að starfsmenn ríkisins hafi unnið þessi verk? (Gripið fram í: Þeir voru börn síns tíma.) Já, og unnu sín verk ágætlega og gera enn og er alveg óþarft að tala af einhverri fyrirlitningu um það sem unnið er af starfsmönnum ríkisins, alveg fráleitt. Ég er hins vegar fylgjandi því fyrirkomulagi sem við búum við í dag, að vegaframkvæmdir séu boðnar út á markaði en algerlega andvígur einkaframkvæmdinni sem ég tel vera mjög varhugaverða.

Hæstv. ráðherra talar um áhuga fyrirtækja og fjármálamanna á að bæta vegasamgöngur í landinu. Ég hef áhyggjur af því að þessir aðilar fái of mikil völd í hendur og að þeir taki frumkvæðið eins og við höfum séð með þessa áhugamenn um Kjalveginn, aðstandendur að Norðurvegi ehf. Við sjáum það víðar í landinu að þessir aðilar, þessir fjárfestar og peningamenn eru að reyna að taka frumkvæðið út úr þessum sal. Það finnst mér óeðlilegt. Þetta á að vinna á faglegum nótum í samráði við sérfræðinga á ýmsum sviðum en slíkir aðilar eiga ekki að vera stefnumótandi. Ég tel það vera mjög varhugavert.

Varðandi lífeyrissjóðina þá haga þeir sér eins og hver annar fjárfestir. Samkvæmt lögum ber þeim að leita ávöxtunar þar sem hún er hæst eða býðst hæst hverju sinni, að vísu að því tilskildu að fjárfestingin sé örugg. Lífeyrissjóðirnir eru eins og hver annar fjárfestir. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að halda eigi (Forseti hringir.) inn á aðrar brautir með lífeyrissjóðina en þá þurfum við líka að breyta ýmsu öðru, (Forseti hringir.) þar á meðal lögum og vissulega einnig hugarfarinu.