133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[18:35]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni viðbrögðin og fyrir spurninguna. Nei, ég hef ekki kynnt mér þessa áætlun sérstaklega en mér er kunnugt um að innan Evrópusambandsins eru sterk öfl að verki sem vilja efla umhverfisvernd og þetta kemur mér í reynd ekki á óvart. Ég tek undir með hv. þingmanni að strandsiglingarnar hafa allt til að bera til að geta verið ódýrari og hagkvæmari kostur fyrir samfélagið í heild sinni en rándýrir uppbyggðir vegir sem eiga að anna þungaflutningum. Ég tek einnig undir það sem fram kemur í máli hv. þingmanns að með tilliti til umhverfisins er þetta miklu heppilegri leið.

Ég hef ekki kynnt mér þessa áætlun sérstaklega en þetta hefur engu að síður verið tónninn í tillögugerð okkar á þinginu og við umræðu síðastliðinn fimmtudag gerði ég ítarlega grein fyrir þingmáli sem þingflokkurinn allur stendur að undir forustu hv. þm. Jóns Bjarnasonar og hefur verið flutt margsinnis á þinginu.