133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[18:47]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi markaða tekjustofna. Eins og fram kemur í áætluninni blasir það auðvitað alveg við að til vegagerðar erum við að gera ráð fyrir því að leggja fram fjármuni langt, langt umfram markaða tekjustofna. Við erum að gera ráð fyrir því að bein framlög úr ríkissjóði aukist verulega mikið þannig að hinir mörkuðu tekjustofnar til vegagerðar og til Vegasjóðs eru ekki nema hluti af þeim tekjum sem við höfum til þess að greiða rekstur og fyrirhugaðar framkvæmdir. Það er nauðsynlegt að það komi fram.

Hvað varðar aðflugsbúnað m.a. á Ísafjarðarflugvelli og Þingeyrarflugvelli, að þó að þarna sé tekið þannig til orða að búnaðurinn sé kominn til ára sinna þá liggur það alveg fyrir að honum er viðhaldið og hann er fullfær um að gegna hlutverki sínu þó að næsta kynslóð slíks búnaðar sé nú komin til skjalanna. Þess vegna er gert ráð fyrir að á þessu ári og því næsta verði þetta allt endurnýjað.

Hins vegar bæði hvað varðar Ísafjarðarflugvöll og Þingeyrarflugvöll þá þarf umfangsmiklar rannsóknir og þróun og einnig þjálfun flugmanna til þess að geta nýtt t.d. Þingeyrarflugvöll þannig að aðflugstækni og blindflugstækni sé nýtt til hins ýtrasta, svo ég tali nú ekki um næturflug en það liggur alveg fyrir að ekki er gert ráð fyrir næturflugi til Ísafjarðar. Hins vegar standa vonir til að næturflug verði mögulegt á Þingeyrarflugvelli (Forseti hringir.) en til þess að svo megi verða þarf að vinna frekar (Forseti hringir.) úr gögnum en hægt hefur verið að gera hingað til.