133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[18:50]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var reyndar að spyrja um markaða tekjustofna undanfarin ár, hvort þeir hefðu verið nýttir eins og þeir reyndust vera en ekki aðeins eins og þeir voru áætlaðir, en látum það nú vera.

Varðandi aðflugsbúnaðinn stendur í áætluninni sem við erum að fjalla um á bls. 73, um tækjabúnað á flugvöllum í flokki 2:

„Búnaður flugvallarins skal þannig samsettur að allur búnaður sem er í notkun í aðflugi skal uppfylla það skilyrði að bilun í einu tæki valdi ekki röskun á aðfluginu.“

Ég er satt að segja ekki viss um, miðað við það sem ég las hér áðan, að þetta standist allt saman en ég vona það þó.

Varðandi næturflugið er mér fullkunnugt um að aldrei hefur staðið til að reyna að koma á næturflugi til Ísafjarðar því að landfræðilegar aðstæður leyfa það einfaldlega ekki. Öðru máli gegnir um Þingeyri, þar getum við væntanlega komið upp næturflugi, sem er mjög mikilvægt vegna öryggisaðstæðna á þessu svæði landsins sem við vitum hvernig er landfræðilega. Mér finnst því ekki vel að málum staðið að það eigi ekki að fara í grundvallarrannsóknir fyrr en á þessu ári, sérstaklega með tilliti til þess að það hefur komið hvað eftir annað til álita að hætta að staðsetja sjúkraflugvél á Ísafirði, sem hefur fyrir tilstilli stjórnarandstöðunnar, hygg ég vera, og mótmæla heiman að, fengist í gegn að yrði staðsett þar áfram.