133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[18:52]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir að það er ekki skortur á fjármunum sem leiðir til þess að ýtrasta aðflugstækni er ekki komin til skjalanna á Þingeyrarflugvelli heldur að það tekur tíma bæði hjá flugfélögunum og Flugmálastjórn að þróa slíka tækni og það er verið að vinna að því þannig að ég held að það sé ekki rétt fyrir okkur hv. alþingismenn að setja okkur á mjög háan hest gagnvart þeirri vinnu. Við höfum væntanlega takmarkaðar upplýsingar til þess að taka afstöðu til þess.

En í þessari áætlun er lagt til að byggja upp slíka aðstöðu, byggja upp þennan búnað og byggja upp aðstæður á Þingeyrarflugvelli eins góðar og nokkur kostur er til þess að hægt sé að nýta hann fyrir sjúkraflug og allt annað flug. Það er ríkur vilji til þess af hálfu samgönguyfirvalda og flugfélaganna að standa þannig að málum að flugöryggið sé sem mest og best og það er það sem er látið ráða för. Flugöryggið er látið ráða för þegar ákvarðanir eru teknar um uppbyggingu þessara tækja.