133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[18:54]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2007 — sem er nú hafið — til 2010. Fyrir helgi var rædd samgönguáætlun til tólf ára. Því miður var ég vant við látin á þeim tíma og komst ekki í umræðuna en hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gerðu grein fyrir afstöðu okkar til langtímaáætlunar í samgöngumálum þannig að ég held að okkar afstaða hafi komið vel fram.

Það væri margt hægt að segja um þessa þingsályktunartillögu. Í fyrsta lagi, eins og margoft hefur komið fram, harma ég hversu seint hún kemur fram því að það skiptir öll byggðarlög miklu máli að vel sé staðið að samgönguáætlun og ekkert síður á höfuðborgarsvæðinu en úti um allt land. Það er viðurkennt og löngu viðurkennt að samgöngumál og góðar samgöngur séu ein besta forsenda fyrir jákvæðri byggðaþróun og uppbyggingu bæði búsetu og atvinnu úti um allt land þannig að það er til mikils að vinna að standa vel að gerð þingsályktunartillögunnar og að fjármagn sé nægilegt til þessa verkefnis.

Ég tel líka mikilvægt að við horfum á þessar samgönguáætlanir út frá sjálfbærri þróun samgangna á Íslandi. Þá verður að hafa í huga að við höfum með aukinni velsæld og möguleikum á að eiga stór og mikil farartæki, og í raun og veru með mjög lélegum almenningssamgöngum, stuðlað að því að einkabílisminn er orðinn mjög mikill og við höfum dregið úr því sem við höfðum áður, þ.e. skipaflutningum hringinn í kringum landið. Þetta hefur leitt til þess að bæði almenna umferðin og ekki síður þungaflutningar hafa aukist. Krafa fólks sem býr um landið allt, eða krafa kaupmanna getum við sagt, hefur líka stuðlað að því að hafa sem minnstan lager, hafa sem minnstan kostnað og hafa lagerinn í raun og veru í flutningum á milli staða og því er krafan um daglegan akstur mikil.

Ég tel að hugarfarsbreytingu þurfi hjá þjóðinni til að breyta þessu. Við verðum að horfa á þetta heildrænt út frá hagsmunum okkar og út frá hnattrænu sjónarmiði og út frá þeirri markaðssetningu sem við höfum reynt að stuðla að, að efla hér ferðaþjónustu og þá atvinnugrein sem hefur hvað hraðast vaxið, að hvetja erlenda ferðamenn til þess að koma hingað til þess að njóta landsins og náttúrunnar, og hluti af samgöngum okkar er hluti af þeirri ímynd. Því miður tel ég að við höfum ekki staðið okkur sem skyldi þannig að ég tek undir orð hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hvað það varðar.

Ég gagnrýni líka þær sveiflur sem hafa orðið í tekjum til vegagerðar eða samgangna því að þær hafa verið mjög sveiflukenndar. Það hafa verið gefin mikil loforð rétt fyrir kosningar og síðan hafa þau loforð verið svikin. Því tel ég að með samgönguáætluninni, bæði langtíma- og til fjögurra ára, sé það í raun og veru bindandi fyrir þingið að standa við áætlunina. Það eru svo margir sem verða að aðlaga sig þessari áætlun og hafa væntingar og það er illa gert að byggja upp væntingar og standa síðan ekki við þær.

Í því sambandi vil ég nefna jarðgöng undir Hellisheiði eystri sem virðast hafa dottið alveg út úr langtímaáætluninni, þau eru a.m.k. ekki í fjögurra ára áætluninni og ég tel það miður því að þessi jarðgöng eru búin að vera það lengi inni og það hefur skapað væntingar. Samgöngur milli Vopnafjarðar, upp á hringveginn og yfir á Hérað eru alls ekki viðunandi og verða ekki á næstu árum og þar af leiðandi verður svæðið ekki sem eitt atvinnusvæði og getur ekki byggt á þeim styrk sem það hefði ef þarna væru jarðgöng.

Þessi áætlun byggir bæði á flugi og höfnum, vegum og jarðgöngum. Ég vil nefna nokkur dæmi en annað verður að bíða síðari umræðu. Ég fagna því að farið verður að huga að lengingu Akureyrarflugvallar. Það þarf að koma inn töluvert fjármagn og huga miklu meira að uppbyggingu á Egilsstöðum í tengingu við flugið, bæði hvað varðar byggingar en ekki síður hvað varðar ákvörðun um stækkun flugvallarins. Þetta hangir allt saman, nú er nýbúið að ganga frá aðalskipulagi á Fljótsdalshéraði og þar er gert ráð fyrir breytingum á þjóðbraut vestan við bæinn en það stendur líka til að byggja nýja brú yfir Lagarfljót, sú sem nú stendur var byggð 1905 og er komin til ára sinna og er alveg ótrúlegt hvað hún hefur staðist tímans tönn. Þarna verður allt að fara saman, það þarf að skoða þetta heildrænt, lengingu á flugbrautinni, nýja legu þjóðvegar og legu Lagarfljótsbrúar. Þetta er stórt og mikið verkefni sem ég tel að margir þurfi að koma að og horfa á þetta í miklu stærra samhengi en að taka út einstaka búta. Við verðum að horfa til lengri framtíðar en þeirrar sem við gerum ráð fyrir í fjögurra ára áætluninni (Forseti hringir.) og jafnvel í tólf ára áætluninni líka.