133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[19:46]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar gatnamótin á Kringlumýrarbrautinni þá er aðalatriði þess máls að búið var að undirbúa það að setja af stað umhverfismat vegna mislægra gatnamóta við Kringlumýrarbraut. Það var stoppað af borgaryfirvöldum fyrir tveimur árum. Þá var farið út í aðrar framkvæmdir, ljósastýrð gatnamót, að vilja R-listans. Þess vegna eru ekki inni á fjögurra ára áætlun margir milljarðar til að fara í þau gatnamót en engu að síður gerum við ráð fyrir framkvæmdum, bæði við Kringlumýrargatnamótin og tengingum inn í stokk niður undir Lönguhlíðina.

Hvað varðar hjólreiðastíga sem hv. þingmaður nefndi er, eins og ég svaraði fyrr í dag, gert ráð fyrir því í nýjum vegalögum að taka hjólreiðastígana inn. Ég svaraði því í dag að við þurfum að gera ráð fyrir því, þegar sú löggjöf hefur verið samþykkt og afgreidd, að hjólreiðastígar verði teknir inn þar sem það á við í samningum borgarinnar og Vegagerðarinnar og kosta hjólreiðastíga þar sem samkomulag verður um að þeir séu lagðir af heildarfjármögnun samgönguáætlunar.

Aðeins út af því sem var tilefni þess sem hv. þingmaður talaði um í upphafi sem voru athugasemdir mínar við málflutning Helga Hjörvars. Það er alrangt eins og hann leggur þetta upp í grein sinni í Blaðinu, sem ég vitnaði til, vegna þess að höfuðborgin fer ekki illa út úr þessari samgönguáætlun. Í höfuðborginni eru tæplega 3% af vegakerfi landsins en höfuðborgarsvæðið fær rúm 37% af (Forseti hringir.) fjármagninu. Ég tel að höfuðborgarsvæðið sé mjög vel sett hvað varðar framlög samkvæmt þessari samgönguáætlun.