133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[19:49]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Í þeirri fjögurra ára áætlun sem við ræðum hér eru mörg ágæt mál og í heildina séð held ég að ekki sé mikill ágreiningur um það sem í henni er þó að það sé áherslumunur og menn vilji auðvitað sjá sumar framkvæmdir ganga hraðar en raun ber vitni samkvæmt henni.

Ég tek undir það sem menn hafa sagt að við verðum bara að vona að þessi áætlun um að hrinda í framkvæmd því sem hér er til lagt fái að standa og að ekki verði talin ástæða til að hrófla við því af þeim stjórnendum sem sitja munu eftir næstu kosningar. Ég tel að þessar framkvæmdir í vegamálum hjá okkur eigi að hafa forgang og þá verða menn líka að horfast í augu við það að þurfa að veita þeim þann forgang. Það gerist ekki sisvona af sjálfu sér, það þarf þess vegna að hafa áhrif á aðrar framkvæmdir í landinu. Það er ekki líklegt að menn standi við þessa samgönguáætlun ef ýtrustu framkvæmdir fara á fulla ferð eins og menn áætla nú í stóriðju og öðrum slíkum málum. Það er full ástæða til að taka undir það sem menn hafa sagt um þessa hluti.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það hringl sem hefur verið á þessum málum á undanförnum árum en vonast bara til að það sé að baki og menn hætti því, því að landsbyggðin má ekki við því að bíða eftir þeim samgöngubótum sem eru í þessum áætlunum og þó meira væri.

Samfylkingin hefur lýst því yfir að hún vilji gera átak í samgöngumálum og það átak á síst að standa að baki þeim áætlunum sem hér eru uppi. Ég er því vongóður um framhaldið hvað þetta varðar. Ég leyfi mér að ræða málin dálítið vítt og breitt í þessum ræðutíma vegna þess að það hefur verið gert við þær umræður sem hér hafa verið, bæði um langtímaáætlunina og þessa. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. samgönguráðherra hvort ekki sé ástæða til að skoða sig um í því að undirbyggja hagkvæmari gerð jarðganga heldur en nú er. Ég spyr hvort ekki sé skynsamlegt að skoða það hvort ríkið eigi ekki að fjárfesta í bor til að heilbora göng í landinu. Það er ekki þar með sagt að ríkið eigi að bora göngin, slíkt er hægt að bjóða út. Það hefur komið fram og kom fram í viðtölum við þá sem höfðu áhuga á að fara í slíka heilborun ganga á Austfjörðum að það væri ekki hægt nema hafa verkefni fram í tímann, ekki væri hægt að kaupa slíkan bor og vita ekki um verkefni lengra fram í tímann og þurfa kannski að keppa um þau verkefni sem koma á markaðinn eða sitja uppi með það að hafa ekki verkefni fyrir slíkt verkfæri.

Það er hins vegar ljóst að það stendur til að bora jarðgöng. Nóg er af verkefnum fram undan fyrir slíkt verkfæri og þess vegna væri ráð að skoða hvort ríkið eigi ekki með einhverjum hætti að sjá til þess að slíkt verkfæri sé til staðar og sé til reiðu til að nýta við slíka jarðgangagerð. Ég kem þessu á framfæri og spyr hæstv. ráðherra hvort menn hafi skoðað þann möguleika.

Síðan langaði mig til að ræða um eitt mikilvægt atriði og það eru framkvæmdirnar norðvesturtengingin frá borginni, Sundabrautin, breikkun Hvalfjarðarganga og áframhaldandi vegur upp í Borgarfjörð sem eru ekki á þessari fjögurra ára áætlun sem slíkar, það átak allt saman. Eitt er þó ljóst að á þeim fjórum árum sem fram undan eru þurfa menn að taka ákvörðun um það og helst sem allra fyrst hvernig leysa eigi úr því að auka afköst Hvalfjarðarganga. Þar hafa verið uppi fleiri en einn möguleiki. Þetta er atriði sem menn þurfa að fást við. Ég varð fyrir vonbrigðum með það að Grunnifjörður sem ég hafði einhvers staðar heyrt hæstv. ráðherra lýsa yfir að hann væri sammála að ætti að fara inn á langtímaáætlun sást ekki þar, sú leið milli Akraness og Borgarness sem ég hef lengi litið á og margir aðrir sem framtíðarleið fyrir þjóðveg 1.

Mér er fullkunnugt um að gerðar hafa verið athugasemdir við þessa leið vegna skipulagsáætlana sveitarfélaganna þarna en þær athugasemdir eru byggðar á miklum athugunum og ég tel mjög nauðsynlegt að gerður verði samanburður á þessum tveimur leiðum, annars vegar þeirri leið sem vegurinn liggur núna og hins vegar leiðinni fyrir framan fjörðinn sem Akurnesingar og sveitarstjórnarmenn á þessu svæði, bæði í Borgarnesi og í Hvalfjarðarstrandarhreppi, hafa viljað láta skoða vandlega. Þessi leið er að mínu viti mjög líkleg til að verða talin með umhverfismati miklu betri en sú leið sem núna liggur í kringum þennan fjörð og þar af leiðandi um vatnsupptökusvæði alls fjarðarins en þessi fjörður er á Ramsar-áætlun. Það hlýtur að vera a.m.k. einnar messu virði að bera saman þessar leiðir. Ég lýsi yfir vonbrigðum mínum með það að hæstv. ráðherra skuli ekki hafa séð til þess að þetta verkefni kæmist inn á langtímaáætlun sem framtíðarlega vegarins. Ég geri hins vegar ráð fyrir að hægt sé að fara í slíkt umhverfismat þrátt fyrir það því það hlýtur að þurfa að skoða hvernig framtíðarlegan á að vera þegar menn ætla að stefna að tvöföldun vegar á leiðinni upp í Borgarnes eins og að er stefnt.

Þetta verða að vera lokaorð mín í þessari ræðu því að tíminn er stuttur en ég vildi koma þeim málum að sem ég hef nefnt.