133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[19:59]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vilji sveitarfélaganna liggur fyrir hvað þetta varðar. Hins vegar hafa skipulagsyfirvöld sett fótinn fyrir málið og ég væri í sjálfu sér ekkert ósáttur við það ef það væri byggt á umhverfismati en það umhverfismat hefur aldrei farið fram. Mér finnst það lágmarkskrafa að fram fari umhverfismat og að þessar leiðir verði bornar saman á þann hátt sem eðlilegt er hvað slíkt varðar, því að margt bendir til þess að niðurstaðan yrði sú að það væri miklu betra að aðalleiðin lægi fyrir framan fjörðinn en í kringum hann.

Ég talaði við aðila sem tóku þátt í þessari ákvörðun skipulagsyfirvalda og í ljós kom að þeir höfðu gert ráð fyrir að vegurinn fyrir framan fjörðinn væri einungis tengivegur milli Akraness og Borgarness en ekki aðalleiðin á þjóðvegi 1. Ég veit ekki hvaðan þeir fengu þá speki að líta þannig á málið því að það er allt annað mál ef menn líta á þetta með þeim hætti og þá skil ég niðurstöðuna. Auðvitað verður maður að gera ráð fyrir að þarna verði um aðalleiðina að ræða og ákvörðun um það skiptir miklu máli varðandi það hvernig menn ganga frá hugmyndum um breikkun Hvalfjarðarganga. Þetta er stórt mál sem þarf að skoða og ég er á þeirri skoðun að þarna þurfi að fara fram umhverfismat til að eðlilega og rétt sé staðið að málum. Ég er hins vegar algerlega sáttur við það ef það verður niðurstaðan úr umhverfismati að betra sé að vegurinn liggi í kringum fjörðinn en fyrir framan hann. (Forseti hringir.) Þá verður maður auðvitað að sætta sig við það en ég hef enga trú á að það verði niðurstaðan.