133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[20:01]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil undirstrika að ég lít svo til að þegar farið verður í að leggja veg yfir Grunnafjörð verði það að vera meginleið sem tengdi saman landshlutana, ekki bara byggðina í Borgarnesi og Akranesi. Það er umfangsmikil aðgerð og taka þarf tillit til þess. Ég vil undirstrika að þetta er núna í höndum sveitarfélaga og skipulagsyfirvalda og setja verður verkið í umhverfismat.

Hvað varðar tengingar norðvestur, eins og hv. þingmaður nefndi, gerum við ráð fyrir að með hinum sérstöku fjármögnunaraðgerðum verði farið í það, sem er geysilega mikilvægt, sérstaklega á Kjalarnesinu og síðan áfram norður. Við gerum ráð fyrir að þau verkefni verði reyndar aðallega á síðari tímum langtímaáætlunarinnar en að nokkru leyti á fyrsta tímabilinu. Við sjáum því fram á betri tíð hvað það varðar.