133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[20:05]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég sagði það í fyrri ræðu minni að ég ætlaði að nota þessa ræðu til að fara aðeins yfir staðbundin verkefni í kjördæmi mínu ásamt því að ræða kannski örlítið meira þar sem frá var horfið varðandi samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu. Ég vil einnig segja fyrir það fyrsta að það er auðvitað synd, vegna þess hve stuttur tíminn er, að menn skuli ekki mikið ræða siglingaáætlun, flugáætlun eða aðra hluti sem eru í vegáætluninni eins og umferðaröryggismál, sem er töluvert metnaðarfullt í þessu plaggi, eða almenningssamgöngurnar sem einnig er minnst á. En af því að ég nefni almenningssamgöngur er ég hiklaust á þeirri skoðun að ríkisvaldið eigi að koma til móts við sveitarfélögin með því að fella sem mest niður af opinberum álögum, bæði vegna kaupa á strætisvögnum og öðrum slíkum tækjum. Eins held ég að við ættum að setja þá algerlega á gjaldfrjálsa olíu, eins og þeir hafa reyndar sótt um, og sleppa í staðinn afslættinum sem þeir fá. Þannig komi ríkið til móts við sveitarfélögin til að freista þess að auka almenningssamgöngur. Við sjáum það í vögnum á höfuðborgarsvæðinu að almenningssamgöngur og þetta strætisvagnakerfi er ákaflega lítið notað nema kannski rétt á smáálagstímum á morgnana og svo seinni part dags. Það gæti þá kannski orðið til þess að farin verði sama leið og þeir fóru á Akureyri, þ.e. að gera strætisvagnaferðir gjaldfrjálsar og viti menn, notkunin jókst auðvitað mikið við það.

Í öðru lagi er Sundabraut sem er ekki sérmál höfuðborgarbúa heldur okkar allra, því hún á að vera aðalinnkeyrslan til höfuðborgarinnar og við notuð hana mikið. Þeir 20 milljarðar sem ætlaðir eru í þetta verk, þeir 8 milljarðar 2007–2010 sem koma af símapeningunum og svo þeir 12 milljarðar sem eru á öðru tímabilinu, 2011–2014, sem eru undir sérstakri fjáröflun, eiga að duga miðað við að innri leiðin sé farin. En ég vil segja, virðulegi forseti, eftir að hafa farið á fjölmennan fund íbúasamtaka sem haldinn var við Sundabraut fyrir um einu ári þar sem verið var að sýna hvernig Sundabrautin var þar hugsuð, þ.e. að hún ætti að koma yfir að landi, ef svo má að orði komast, þá held ég að sú leið sé bara gersamlega ófær, það sé ekki hægt gagnvart íbúum þessa svæðis að koma með svona fjölfarna braut, aðalinnkeyrslu til borgarinnar, þar að landi. Þess vegna held ég að fara verði jarðgangaleiðina, þar sem komið væri upp á Laugarnestanga, ef ég man rétt. En ef sú leið verður farin kemur það auðvitað upp að peninga vantar upp á miðað við það sem hér er sagt. En Sundabraut og aðrar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu eru ekki síður áhugamál landsbyggðarbúa vegna þess að við horfum á þetta í einni heild alveg eins og við væntum þess og vonum að höfuðborgarbúar horfi á framkvæmdir úti á landi ekki sem framkvæmdir fyrir þá íbúa sem þar eru heldur fyrir Íslendinga alla og þá sem hingað koma.

Virðulegi forseti. Aðeins yfir í mitt kjördæmi. Þar kem ég fyrst að því sem ég tel brýnast í jarðgangamálum á því svæði en það er nýbygging Norðfjarðarganga. Ég hef sagt það í stuttum andsvörum að ég tel þar of hægt farið. Of seint er að bjóða þau út haustið 2009 og að framkvæmdir hefjist ekki fyrr en árið 2010 og göngin verði tilbúin 2013. Þetta er einfaldlega allt of seint miðað við þær stóru og miklu framkvæmdir sem hafa átt sér stað fyrir austan til að tengja Neskaupstað enn betur þeirri framkvæmd. Vegurinn um Oddsskarð, og er óskiljanlegt hvernig hann hefur verið lagður í 630 metra hæð, er barn síns tíma og engu hættuminni vegur en t.d. Óshlíðin. Þarna þarf að finna leið til að flýta þessu og ég er sannfærður um að ef stefna Samfylkingarinnar verður ofan á í komandi kosningum og Samfylkingin kemst til valda mun þetta samgönguátak kannski ganga betur eftir og þá hygg ég að að flýta þurfi ýmsum verkefnum eftir það stóra og mikla átak sem átt hefur sér stað fyrir austan. Ég er auðvitað að segja þetta í sömu andrá og ég segi að fresta eigi stóriðjuframkvæmdum, sérstaklega í Straumsvík og Helguvík.

Vopnafjörður. Ég hef sagt það fyrr og ætla að segja það enn einu sinni vegna íbúa á norðausturhorninu en þar á að tengja með nýjum vegi milli Öxarfjarðar og Þistilfjarðar eða svokallaðri Hófaskarðsleið. Þetta eru vegir sem eru í hryllilegu ástandi og er okkur ekki samboðið að bjóða fólki upp á árið 2007. Þess vegna ítreka ég það og segi að ég held að samgönguráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar eigi að biðja íbúa þess svæðis afsökunar á því hversu samgöngur til þeirra eru lélegar eins og þær eru í dag. En sem betur fer stendur þetta til bóta og á fyrsta tímabilinu til 2010 á að klára veginn til Vopnafjarðar. Þó kom fram á fundi með þingmönnum Norðausturkjördæmis hjá Vegagerðinni í morgun að a.m.k. 200 millj. kr. vantar til að þær áætlanir gangi eftir en vonandi finnast þeir peningar svo að hægt verði að klára.

Ýmsar aðrar vegaframkvæmdir eru í kjördæminu svo sem framkvæmd sem núna er í útboði um Arnórsstaðamúla þar sem verið er að klára að leggja veginn bundnu slitlagi frá Akureyri til Egilsstaða. Stórframkvæmd bíður okkar á veginum yfir Öxi sem er stytting, eins og komið hefur fram í dag, um tæpa 60 kílómetra á hringveginum og er auðvitað nauðsynlegur þáttur, ég tala ekki um ef verið er að ganga til sameiningar sveitarfélaga þ.e. Djúpavogshrepps við Fljótsdalshérað, þá mun þetta stytta leiðina mjög þar á milli. Síðan er vegurinn um Skriðdal, þjóðveg 1, þar er líka verkefni fyrir, og segja má að ánægjulegt hafi verið að sjá það í morgun, á þeim umrædda fundi sem ég gat um, að brýrnar þrjár sem eftir eru í Skriðdal, sem koma inn á þetta ár núna, verða kláraðar.

Virðulegi forseti. Stórt og mikið verkefni hefur verið unnið af Norðlendingum af fyrirtæki sem heitir Greið leið ehf. að undirbúningi Vaðlaheiðarganga. Sú undirbúningsvinna er alveg frábær og hefur verið gaman að fylgjast með hve faglega hefur verið unnið. Nýlega var úrskurðað að Vaðlaheiðargöng þyrftu ekki að fara í umhverfismat þannig að það tefur þá ekki framkvæmdina. Þær þrisvar sinnum 100 milljónir sem settar eru í áætlunina fyrir árin 2008, 2009 og 2010 eru vonandi nægjanlega há upphæð til að áform í samgönguáætlun, þ.e. að Vegagerðin taki strax — og ég tek skýrt fram, virðulegi forseti, eins og þar stendur og legg áherslu á það sem sjónarmið mitt, að hefja verði viðræður strax við þetta fyrirtæki um hvenær einkaframkvæmd á Vaðlaheiðargöngum geti hafist. Og ég hika ekki við að segja, virðulegi forseti, og segi enn einu sinni að þær þyrftu að hefjast sem fyrst, m.a. til að láta þær hanga saman við lengingu flugvallarins á Akureyri vegna þess að ég hef margoft sagt að æskilegt væri að nota það kurl sem kemur úr Vaðlaheiðargöngum, sennilega 40–50% af því sem þar kemur, í lengingu flugbrautarinnar á Akureyri. Það er mjög hagkvæm framkvæmd og ber að gera á þann hátt.

Virðulegi forseti. Margt fleira mætti ræða um í samgöngumálum í kjördæmi mínu. Ég nefni rétt í lokin tengivegi sem eru mjög langir í kjördæminu eins og komið hefur fram. Á því tímabili sem nú er að hefjast, 2007–2010, fyrsta hluta áætlunarinnar, er aðeins varið tæpum einum milljarði í tengivegi og hliðarvegi alla í kjördæmi mínu og fram kom í morgun að þar eru menn að reyna að stagbæta og setja inn spotta hér og spotta þar, en þörfin er brýn. Þá kem ég að því á lokasekúndu minni hér, virðulegi forseti. Þörfin er svona brýn vegna þess að fjárveitingar margra undanfarinna ára hafa verið allt of litlar miðað við hvað þörfin er mikil.

Virðulegi forseti. Þar sem ég á sæti í samgöngunefnd hlakka ég mikið til að takast á við þetta verkefni á næstu vikum.