133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[20:18]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Virðulegi forseti. Samgönguáætlunin sem hér hefur verið lögð fram og við höfum rætt í dag, fjögurra ára samgönguáætlun, fer til samgöngunefndar eftir umræðuna hér. Ég sit í hv. samgöngunefnd fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og þar gefst okkur tækifæri til að fara nánar í einstaka þætti áætlunarinnar og hafa jafnvel áhrif á forgangsröðun og einstök verkefni eftir því sem hægt er í nefndarstarfinu.

Það sem ég ætla að víkja aðeins að eru m.a. þingmál sem ég og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram varðandi nokkrar áherslur í samgöngumálum. Ég vil fyrst minnast á strandsiglingatillöguna, sem við fluttum hér fyrst, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í líklega ein fimm ár en síðustu þrjú árin ásamt þingmönnum Frjálslynda flokksins, um að taka upp strandsiglingar og að ríkið beiti sér fyrir því að það verði gert og styðji við það, hvort sem það yrði með útboði og stuðningi við það eða með hvaða hætti það væri en það væri mjög mikilvægt að koma þeim á. Þetta höfum við ítrekað í umræðum okkar um samgöngumálin. Þetta mál hefur fengið góðar undirtektir á Alþingi en minna verið um framkvæmdir en ég vona að þetta verði tekið alvarlega.

Það er önnur tillaga sem ég vil líka minnast á og ég hef flutt, eða þingmál í þessa veru, síðan ég kom á þing og það eru nú orðin sjö ár síðan eða þetta er áttunda árið. Það er tillaga um áherslur í uppbyggingu og viðhaldi á safn- og tengivegum eða þeim vegum sem liggja að aðalhringveginum inn til dala og út til stranda. Í rauninni eru þetta þeir vegir sem eru svo mikilvægir fyrir bæði athafnalíf og búsetu og hvaðeina í hinum dreifðu byggðum landsins. Ég hef flutt þingsályktunartillögu til að árétta þetta og mun ég vitna í hana. Það er nú svo að góð mál sem við flytjum fást oft ekki tekin á dagskrá og þannig er með þetta mál sem ég lagði fram strax á haustdögum og hefur ekki enn fengist tekið á dagskrá en þar stendur, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að hrinda í framkvæmd sérstöku átaki í viðhaldi og uppbyggingu héraðsvega sem flokkast samkvæmt vegalögum oftast undir safn- og tengivegi. Sérstaklega skal hugað að lagningu bundins slitlags á þessa vegi. Til þess verði varið a.m.k. 4 milljörðum kr. sem dreifist jafnt á næstu fimm ár. Komi sú fjárveiting til viðbótar þeim fjármunum sem ætlaðir eru þessum vegaflokkum í samgönguáætlun.“

Ég hef lagt það til á undanförnum árum að gert verði átak í þessum vegum, safn- og tengivegum, þessum sveitavegum. Þarna er um gríðarlega hagsmuni að ræða fyrir byggðina og búsetuna. Börn er keyrð langan veg í skóla og fólk þarf að sækja vinnu. Þessir vegir er líka mikilvægir fyrir alla aðdrætti. Þarna er um að ræða malarvegi sem hafa á undanförnum árum og jafnvel áratugum fengið sáralítið eða ekkert viðhald.

Sá hópur sem býr við þessar aðstæður getur ekki kallað til stórs fjölmenns fundar, ekki svona almennt, en þó held ég, herra forseti, að flest bréf sem við þingmenn fáum séu áskoranir einmitt frá einstökum íbúum, heimilum, sveitarstjórnum, félagasamtökum út um allt land, áskorun um átak í þessum sveitavegum. Menn hafa rætt þar um nauðsyn þess að koma slitlagi á þessa vegi þó svo að það þýddi ekki að þeir ættu að bera sama hraða eða sömu umferðarþyngd og stofnbrautir eða aðrir vegir með bundnu slitlagi en eitthvað mun þetta stangast á við einhverjar reglugerðir og lög, að ef vegir eru með bundnu slitlagi þurfi þeir að bera ákveðinn hraða, 80–90 kílómetra hraða.

Ég spyr því hæstv. samgönguráðherra hvort það hafi verið skoðað að gera sérstakt átak í að leggja bundið slitlag á þessa vegi þó svo að þeir uppfylli ekki þessi skilyrði, þ.e. þennan mikla hraða og burð, því að það skiptir máli fyrir byggðirnar að hafa góða vegi með bundnu slitlagi þó svo að þeir uppfylli ekki þessar kröfur.

Þessa tillögu hef ég lagt fram og ég sakna þess að ekki skuli vera gert öflugra átak í þessari fjögurra ára samgönguáætlun hvað varðar þessa vegi, safn- og tengivegi, sveitavegi. Þeir hafa dregist mjög aftur úr á undanförnum árum, það er viðurkennt, og í þingsályktunartillögu okkar eru tölur sem sýna að viðhald og uppbygging á þessum sveitavegum hefur dregist hlutfallslega mjög mikið saman. Ég sakna þessa, ég hefði viljað sjá hér gert stórt átak í þessum vegum því að þeir eru forsenda fyrir hina dreifðu byggð inn til dala og út til stranda. Vissulega er örlítið bætt í en það er samt svo lítið miðað við þörfina og þá vanrækslu sem þessir vegir út um landið hafa orðið að búa við.

Hægt er að velta fyrir sér einstökum framkvæmdum en við gerum það í samgöngunefnd með hv. formanni Guðmundi Hallvarðssyni, ágætum formanni samgöngunefndar. Ég velti þó fyrir mér t.d. hver sé staða Breiðafjarðarferjunnar Baldurs. Það stendur bara að dregið verði úr stuðningi við starfsemi hennar en ég gat ekki lesið úr textanum raunverulega framtíðarsýn fyrir hana. Ég tel mikilvægt að Breiðafjarðarferjan Baldur fái stuðning. Hún er mikilvæg samgönguleið, bæði til flutninga og eins fyrir fólk og vörur og einnig fyrir ferðaþjónustuna en ég get ekki lesið út úr textanum þarna hver sé framtíð hennar en ég legg áherslu á mikilvægi hennar.

Það má nefna fleiri vegi, veginn norður Strandir sem hefur verið vanræktur vegna þess að menn þykjast ætla að fara í einhverja aðra framkvæmd. Vegurinn norður Strandir, norður á Hólmavík, norður á Drangsnes og norður í Árneshrepp, er mikilvæg samgönguleið sem hefur verið vanrækt miðað við að hún er jú bara tilbúin til að ráðast í hana.

Mér finnst allt of lítið gert þar í þessari áætlun og sömuleiðis gengur allt of hægt með veginn út Barðaströndina (Forseti hringir.) sem hefur verið meira og minna svikið á undanförnum árum að standa við þau loforð sem þar hafa verið gefin. Skógarstrandarvegur, (Forseti hringir.) svona má nefna áfram það sem okkur finnst vera haldið lítið við en við skoðum það betur í (Forseti hringir.) samgöngunefnd, herra forseti.