133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[20:26]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er nú svo með vegasamgöngurnar að lengi er hægt að ræða þær og verður það ekki tæmandi af minni hálfu í seinni ræðunni.

Leiðir flestra landsmanna liggja einhvern tímann til höfuðborgarinnar og sumra oft á ári og það skiptir því máli hvernig aðgangurinn að höfuðborginni er. Lagning Sundabrautar skiptir þar verulegu máli ásamt því að byggja upp Vesturlandsveginn til að auka öryggi og umferðarmöguleika inn til borgarinnar því það þekkja allir þá töf sem verður í umferðinni inn í borgina nánast á hverjum einasta degi. Það eru vissulega framkvæmd sem liggur á og skiptir máli fyrir alla landsmenn.

Í byggðaáætluninni segir m.a. að Byggðastofnun skuli í samvinnu við Vegagerðina leggja mat á verkefni í samgöngumálum sem miða að eflingu byggða og atvinnulífs í landinu. Í því sambandi vil ég ræða nokkur atriði. Í fyrsta lagi, ef við tökum Vestfirðina sem eru það svæði í Norðvesturkjördæmi sem á einna lengst í land með góðar samgöngur inn á þjóðveg landsins, þá eiga Vestfirðingar um þrjár leiðir að velja til að komast inn á aðalþjóðveginn, hringveginn, þ.e. um Strandir og yfir Holtavörðuheiði um Hrútafjarðarbotn og tengjast þannig inn í Borgarfjörð, um Dali yfir Bröttubrekku og einnig í Borgarfjörð og síðan er leiðin frá Stykkishólmi yfir Vatnaheiði, ferjuleiðin, líka samgönguleið Vestfirðinga, sérstaklega af suðurfjörðunum, til höfuðborgarsvæðisins. Síðan liggur leið höfuðborgarbúa og þeirra sem sækja Vesturland og Norðvesturland heim í öfugar áttir.

Ég vék í fyrri ræðu minni í dag örstutt að því hvaða möguleikar gætu legið í því að færa veginn í Hrútafirði norður á leirurnar og stytta þar með akstursleiðina ef á þyrfti að halda með því að fara yfir Laxárdalsheiði og síðan Bröttubrekku eða þá alla leið vestur í Heydal. Þetta á náttúrlega fyrst og fremst við þá daga sem ófært er yfir Holtavörðuheiði, því að sú þjóðleið mundi vera farin að öðru jöfnu.

Við reynum auðvitað að horfa til þess á Vestfjörðum að ná hringtengingu um Vestfirði. Þess vegna hefur verið lögð mikil áhersla á það á undanförnum árum að gera jarðgöng úr Dýrafirði yfir í Arnarfjörð því að þar losnum við við fjallveg sem er mjög hár og erfiður, sem er Hrafnseyrarheiðin, og síðan hlíðina inn Arnarfjörðinn og inn í botn á Mjólkárvirkjun eða í Borgarfjörð. Með því að gera þau jarðgöng sem þar eru fyrirhuguð og eru nú komin á þessa áætlun væri loksins verið að opna þann möguleika að þessar byggðir á norðanverðum Vestfjörðum og sunnanverðum Vestfjörðum tengdust saman sem byggðarkjarni sem gæti sótt þjónustu og samskipti allan ársins hring til svæðanna norður og suður. Þess vegna þarf í framhaldi af því að gerð eru jarðgöng úr Dýrafirði í Arnarfjörð að tryggja samgönguleiðirnar við suðurfirðina og þá eigum við eftir Dynjandisheiðina eða einhverja aðra leið sem væri fær til þess að tengja saman byggðirnar. Ég hef löngum litið svo á að tengingin í Arnarfjörð væri áfangi í því að tengja saman stystu mögulegu leið á milli Bíldudals annars vegar og Ísafjarðar hins vegar, eða Vesturbyggðar og Ísafjarðarsvæðisins.

Til þess að gera það tel ég, vegna þess að við höfum mótað okkur þá stefnu í Frjálslynda flokknum að það eigi almennt að fara láglendisleiðir ef þær eru færar, að þá þurfi að minnsta kosti að gera ein jarðgöng í viðbót til að leysa það að komast á láglendisvegi til Bíldudals. Það þarf sem sagt að fara úr Dynjandisbotni yfir í Langabotn. Það er bara svoleiðis, hæstv. forseti, ef menn ætla raunverulega að tengja þessar byggðir saman með stystu mögulegu leið, þ.e. akstursleiðina annars vegar á milli Vesturbyggðar og til Ísafjarðar og öfugt.

Menn hafa kannski veitt þessari hugmynd litla athygli fram til þessa en ég held að við verðum að spyrja okkur að því hvað það er nákvæmlega sem við viljum fá út úr þessari samtengingu. Jú, við viljum fá samtengingu byggðanna, ná sameiginlegu þjónustusvæði, sameiginlegu samskiptasvæði með nákvæmlega sama hætti og við náðum með göngunum undir Breiðadals- og Botnsheiðar, við Suðureyri, Flateyri, Þingeyri og Dýrafjörð. Það getum við gert, þetta eru ekki þær vegalengdir. Ef það er gert og horft á láglendisvegi er hægt að gera það með skynsamlegum hætti. Það líka einn möguleikinn að færa vegarstæðið á Dynjandisheiði og koma því upp úr snjó á þeim köflum og færa það vestar en það er uppi á heiðinni í dag, því að það liggur náttúrlega undir fjallshlíð sem fyllist af snjó í öllum austan- og norðaustanvindum og vegarstæðið upp á heiðina getur örugglega ekki verið þar.

Ég held hins vegar að ef við viljum virkilega líta til framtíðar ættum við að skoða þessa hugmynd um jarðgöng yfir í Langabotn. Hreyfa ekkert við Langabotni sem er í raun og veru mjög fallegt náttúruverndarsvæði en fara hins vegar á rifinu fyrir framan fjöruna yfir fjörðinn og með veginn út að sunnanverðu og síðan yfir í fjöruna í Trostansfirði án þess að hreyfa við hvorugum fjarðarbotninum eða því skóglendi og því náttúrusvæði sem þar er.

Ég held að menn ættu að athuga þetta og ég vil varpa þessari hugmynd hérna fram vegna þess að ég tel að hún sé allrar skoðunar virði. Með þessu mundum við ná láglendisvegi á milli allra þessara staða og það er það sem við þurfum. Við þurfum að losna við að fara yfir þessa fjallvegi því að enda þótt snjólétt hafi verið í landinu undanfarin ár munu örugglega koma snjóavetur á komandi árum og áratugum eins og jafnan hefur verið á Íslandi. Ísland færist ekkert úr stað og jafnvel þó að einhver hlýnun verði þá er ekkert samasemmerki milli hlýnunar og úrkomu. Úrkoman til fjalla verður snjór eftir sem áður, hæstv. forseti. Við erum ekki að horfa til þess að Ísland sé komið á breiddargráðu Kanaríeyja eða eitthvað slíkt. Þetta verða menn að hafa í huga.

Ég skora á hæstv. samgönguráðherra að velta þessu máli vandlega fyrir sér og hvert framhaldið eigi að vera þegar við erum búin að gera göngin yfir í Arnarfjörð sem er bráðnauðsynlegt til að losna við þann fjallveg sem hindrar algjörlega samgöngur á milli suður- og norðursvæðis Vestfjarða, þ.e. Hrafnseyrarheiðin. Það þarf líka að gera átak í veginum milli Hólmavíkur og Drangsness og koma bundnu slitlagi á hann þannig að þeir staðir hafi eðlilegar samgöngur, það þarf að lagfæra veginn norður á Strandir til að nýta þá ferðamannamöguleika sem þar eru og samgöngur fyrir það fólk sem þar býr.

Hæstv. forseti. Sá tími sem er ætlaður í þessar umræður er svo naumt skammtaður að maður ryður ekki úr sér nema kannski helmingnum af því sem maður vildi tala um en ég vænti þess (Forseti hringir.) að fáum við nægan tíma í samgöngunefnd til að fjalla um þessi mál af mikilli skynsemi.