133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[20:35]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Þessar umræður um samgönguáætlun til fjögurra ára hafa verið nokkuð athyglisverðar og kannski má segja að ræður einstakra þingmanna hafi borið þess merki hvaðan af landinu þeir koma. Það er kannski eðlilegt og í ljósi þess mun ég fyrst og fremst fjalla um þann þátt þessarar áætlunar sem snýr að mínu kjördæmi, þ.e. Reykjavíkursvæðinu. Það má vel halda því fram að það sé rétt að ræða um samgöngumál sameiginlega fyrir Reykjavík og Suðvesturkjördæmið, þ.e. Stór-Reykjavíkursvæðið, vegna þess að allt er þetta partur af sama samgöngunetinu sem erfitt er að slíta í sundur.

Herra forseti. Það er ýmislegt í þessari samgönguáætlun sem ástæða er til að fagna en þó eru þarna atriði sem ég tel ástæðu til að gera athugasemdir við. Sérstaklega vil ég nefna að það er einkar ánægjulegt fyrir okkur Reykvíkinga og raunar alla landsmenn að í samgönguáætlun þessari sem hér er verið að ræða og sömuleiðis í langtímaáætluninni er gert ráð fyrir lagningu Sundabrautar, einhverju mesta baráttumáli okkar Reykvíkinga, og raunar allra landsmanna, í samgöngumálum. Nú loksins sér fyrir endann á biðinni og það verður hægt að hefja framkvæmdir við Sundabraut, framkvæmd sem vinstri menn í Reykjavík stóðu svo allt of lengi í vegi fyrir að hægt yrði að fara út í.

Ég vil líka nefna annað sem er sérstakt ánægjuefni varðandi þessa samgönguáætlun og það er að nú er gert ráð fyrir því að farið verði í hina gríðarlega mikilvægu framkvæmd við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Hringbrautar, að koma þar upp mislægum gatnamótum á hættulegustu gatnamótum landsins. Þetta er annað verkefni sem vinstri menn í Reykjavík hafa komið í veg fyrir að komið yrði á koppinn en sem betur fer sjáum við Reykvíkingar og reyndar aðrir íbúar höfuðborgarsvæðisins loksins fram á að eitthvað verði gert í þessum málum.

Ég nefni líka sem dæmi um mikilvægar samgöngubætur á Stór-Reykjavíkursvæðinu framkvæmdir við Reykjanesbrautina og þá kannski helst gatnamótin við Bústaðaveg sem ástæða er til að lagfæra sökum umferðarþunga. Hið sama verður sagt um samgöngumannvirki við Hlíðarfót sem auðvitað munu skipta verulegu máli þegar fyrirhugaðar háskólabyggingar verða reistar þar. Þá má ekki gleyma því að við sjálfstæðismenn höfum lengi talað fyrir samgönguumbótum á Kjalarnesi, helst breikkun vegarins þar vestur á land sem hefur verið hættulegur. Ég sé ekki betur en að í þessari áætlun sé gert ráð fyrir bragarbót þar á. Þessu ber að fagna og ég lýsi því hér yfir að ég er geysilega ánægður með þessa þætti áætlunarinnar.

Hitt er svo annað mál að það er ekki allt í þessari samgönguáætlun sem ég felli mig við. Þá eru það fyrst og fremst áform sem fram koma í áætlunum um að byggð verði samgöngumiðstöð í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Ég get sem Reykvíkingur ekki fellt mig við það að dýrmætasta byggingarsvæði höfuðborgarinnar verði áfram lagt undir flugvöll. Ég leyfi mér að halda því fram að það sé ekki skipulagslega skynsamlegt fyrir höfuðborgarsvæðið að halda flugvellinum í Vatnsmýrinni. Mér er fullkunnugt um viljayfirlýsingu borgarstjóra og samgönguráðherra um þessi málefni en ég lýsi mig mótfallinn því að reist verði samgöngumiðstöð í Vatnsmýrinni, einfaldlega vegna þess, eins og ég sagði áðan, að ég tel að þarna sé um að ræða dýrmætasta byggingarsvæði höfuðborgarinnar. Það hlýtur að vera hægt að finna flugvallarstæði einhvers staðar annars staðar en á þessu svæði. Ég held að ef við værum að byrja að byggja Reykjavíkurborg upp í dag yrði flugvellinum aldrei valinn staður í Vatnsmýrinni, mönnum kæmi það ekki til hugar.

Ég geri ráð fyrir því að þessari miklu samgöngumiðstöð sé ætlað að hýsa farþega sem ferðast með strætó, langferðabifreiðum og leigubílum, og síðan flugfarþega. Það eru náttúrlega þeir síðastnefndu sem mestu máli skipta. Almenningssamgöngur eru á fallanda fæti eins og menn þekkja og ég tel óráð að fara í 3 milljarða kr. fjárfestingu utan um slíkan rekstur, hvað þá á besta byggingarsvæði landsins.

Það sem er verst í þessu máli að mínu mati er að með því að gera ráð fyrir byggingu samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýrinni er verið að festa flugvöllinn í sessi, en það er verið að gera það bakdyramegin. Hverjum dettur í hug að þegar þessi samgöngumiðstöð hefur verið reist, þessi mikla fjárfesting upp á 3 milljarða kr. verður orðin að veruleika, verði hún rifin ef menn skipta um skoðun og ákveða að færa flugvöllinn eitthvað annað? Auðvitað mun það ekki gerast. Það er ekki raunhæft að halda því fram að ráðist verði í slíka aðgerð þegar miðstöðin hefur verið reist. Ég tel það skyldu mína að koma þessu sjónarmiði mínu hér á framfæri. Það eru vonbrigði að ráð sé gert fyrir þessari samgöngumiðstöð en ég fagna því þó að ekki sé gert ráð fyrir beinum fjárframlögum úr ríkissjóði, heldur sérstakri fjáröflun.

Ég hefði talið skynsamlegra að eyða fjármunum til samgöngumála í önnur verkefni á Stór- Reykjavíkursvæðinu. Hægt væri að telja upp ýmis verkefni, en ég tel eins og ég sagði áðan að það sé ekki borginni okkar til hagsbóta að völlurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Ég tel að með því að gera ráð fyrir byggingu samgöngumiðstöðvar fyrir heila 3 milljarða kr. á þessu svæði séu menn að sýna viðleitni til þess að festa flugvöllinn í sessi til framtíðar á þessu mikilvæga svæði fyrir okkur Reykvíkinga. Því er ég einfaldlega mótfallinn.