133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

588. mál
[21:08]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var svo sem við því að búast að blessaðar útihátíðirnar kæmu til tals þegar verið er að fjalla um skemmtanaleyfi, svo vinsælar sem þær eru nú. (Gripið fram í: Og menningarlegar margar.) Já, mjög margar, rétt að undirstrika það.

Í samræmi við 17. gr. frumvarpsins eru útihátíðir hluti af þessu kerfi og þar er um að ræða svokölluð tækifærisleyfi sem sækja þarf um fyrir einstakar skemmtanir og atburði sem fram fara utan veitinga- og gististaða í atvinnuskyni, eru til þess fallnar að valda ónæði vegna hávaða og kalla á eftirlit og/eða löggæslu. Þarna er sem sagt partur af þessu leyfisveitingakerfi en þarna er einnig verið að einfalda.

Ég vona að með þessari einföldun allri, og það snýr að öllum þáttum og líka útihátíðum, geti kostnaður orðið minni. Ég vona að umhverfið verði allt skipulegra og aðgengilegra fyrir þá sem standa í rekstri, hvort sem um er að ræða veitingahúsarekstur eða skemmtanahald og hvort sem starfsemin er úti eða inni. Tilgangurinn er sá að einfalda hið flókna kerfi sem hefur verið við lýði og vonandi lækka kostnaðinn þegar fram líða stundir.