133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

breyting á XIX. viðauka við EES-samninginn.

572. mál
[21:20]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 92/2006, um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins, nr. 2006/2004, um samvinnu milli innlendra yfirvalda sem bera ábyrgð á framkvæmd laga um neytendavernd. Gerð er grein fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni og er hún prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeirri reglugerð sem hér um ræðir.

Reglugerð 2006/2004 varðar samvinnu milli innlendra yfirvalda sem bera ábyrgð á framkvæmd laga um neytendavernd. Markmið reglugerðarinnar er að tryggja eftirfylgni við lög á sviði neytendaverndar og virkni innri markaðarins með því að koma á samstarfi stjórnvalda yfir landamæri. Ástæðan er sú að með auknum viðskiptum yfir landamæri verður æ algengara að neytandinn og fyrirtæki sem hann á í viðskiptum við séu ekki í sama landi. Án samstarfs milli stjórnvalda er mun erfiðara fyrir þau stjórnvöld sem gæta eiga réttar neytenda í sínu landi að rannsaka og draga til ábyrgðar erlend fyrirtæki, sem gerst hafa brotleg við lög um neytendavernd.

Gildissvið reglugerðarinnar takmarkast við brot á neytendaverndarlöggjöf yfir landamæri. Ýmis svið eru sömuleiðis undanskilin gildissviði reglugerðarinnar, svo sem alþjóðlegur einkamálaréttur og réttarfarsleg samvinna í einkamálum og opinberum málum.

Reglugerðin mælir fyrir um að hvert land skuli tilnefna tiltekið stjórnvald sem aðaltengilið í samstarfinu. Jafnframt skal hvert land tilnefna önnur stjórnvöld í samræmi við skyldur þeirra í tengslum við tilteknar tilskipanir. Þau stjórnvöld sem tilnefnd hafa verið skulu veita sambærilegum aðilum í öðrum EES-ríkjum gagnkvæma aðstoð við tiltekið mál komi fram slík beiðni. Aðstoð stjórnvalds getur falist í rannsókn, heimsókn á starfsstöð fyrirtækis eða jafnvel beitingu þvingunarúrræða.

Unnið er að innleiðingu reglugerðarinnar í viðskiptaráðuneytinu og verður frumvarp þess efnis lagt fyrir Alþingi fljótlega.

Ég legg til, hæstv. forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og til hv. utanríkismálanefndar.