133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[21:26]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga, um breytingu á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að breyta 10. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, þannig að þeir sem hafa fjármagnstekjur skuli greiða gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra. Í núgildandi 10. gr. laganna segir að Framkvæmdasjóður aldraðra skuli fá sértekjur af sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggi á þá sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Hér er lagt til, eins og áður sagði, að þeir sem hafa fjármagnstekjur greiði einnig gjald í framkvæmdasjóðinn. Undanþegnir gjaldskyldu samkvæmt núgildandi lögum eru börn innan 16 ára aldurs og þeir sem eru 70 ára og eldri í lok tekjuárs. Einnig eru þeir undanþegnir gjaldinu sem hafa tekjuskattsstofn sem nemur 1.080.067 kr. eða lægri upphæð. Samkvæmt frumvarpinu er áfram gert ráð fyrir því að þessir aðilar séu undanþegnir gjaldskyldu og til þess að finna tekjuviðmiðunina þegar um hjón eða samskattað fólk er að ræða skal skipta sameiginlegum fjármagnstekjum jafnt á milli þeirra. Þá hafa skattstjórar einnig heimild til að fella gjaldið niður af öldruðum og öryrkjum undir 70 ára aldri sem dveljast á dvalar- og hjúkrunarheimilum og ekki er gert ráð fyrir að það breytist.

Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra verði óbreytt, en það er núna 6.314 kr. á hvern gjaldskyldan aðila samkvæmt lögum nr. 1/2006. Í 11. gr. laga um Ríkisútvarpið ohf. er fjallað um sérstakt gjald vegna Ríkisútvarpsins en þar segir að undanþegnir gjaldinu séu þeir einstaklingar sem ekki skuli sæta álagningu sérstaks gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra eða skuli fá það gjald fellt niður samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga, nr. 125/1999, um málefni aldraðra.

Samkvæmt þessu eiga að gilda sömu reglur um undanþágur frá gjaldskyldu vegna Ríkisútvarpsins ohf. og vegna gjaldskyldu í Framkvæmdasjóð aldraðra. Gera má ráð fyrir að með frumvarpinu fjölgi gjaldendum sjóðsins um 1,5% frá því sem nú er. Ef miðað er við sömu forsendur og liggja að baki áætlun um tekjur sjóðsins á árinu 2007 fjölgar gjaldendum um 2.600 og tekjur Framkvæmdasjóðs aldraðra aukast um 16 millj. kr.

Virðulegur forseti. Í mjög samandregnu máli er hér verið að bæta þeim við sem borga nefskatt í Framkvæmdasjóð aldraðra, bæta þeim við sem hafa fjármagnstekjur, en þeir hafa hingað til ekki greitt þennan nefskatt. Verði frumvarpið að lögum mun það sama gilda um Ríkisútvarpið ohf., en það var gagnrýnt þegar það frumvarp var til umfjöllunar í þinginu á sínum tíma að þeir sem voru með fjármagnstekjur eingöngu sluppu við nefskattinn.

Ég tel mjög æskilegt að frumvarpið hljóti afgreiðslu á vorþingi og leyfi mér að leggja til að því verði vísað til hv. heilbrigðis- og trygginganefndar og til 2. umr.