133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[21:31]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin er ekki að bregðast sérstaklega við orðræðunni sem átti sér stað á fyrri tíð varðandi bæði framkvæmdasjóðinn og Ríkisútvarpið ohf. Þetta var rætt í okkar hópi og eftir þær umræður var ákveðið að bregðast við. Ég veit hins vegar að stjórnarandstaðan hefur verið á þessari skoðun, a.m.k. margir sem hafa tjáð sig. Mér heyrist að menn séu sammála um þetta. Það er vilji ríkisstjórnarflokkanna að stíga það skref að undanþiggja ekki þá sem borga einungis fjármagnstekjur, hvorki gagnvart nefskatti til Ríkisútvarpsins ohf. né til Framkvæmdasjóðs aldraðra.

Mér heyrðist hv. þingmaður segja að um 2.200 gjaldendur væri að ræða en þeir eru 2.600 miðað við þær upplýsingar sem við höfum. Framkvæmdasjóðurinn fær sem sagt 16 millj. kr. út úr þessari breytingu. Ef ég á að setja það í tölulegt samhengi við annað dugar það ekki fyrir einu rými í uppbyggingu. Það kostar rúmlega 18 milljónir að byggja eitt rými, þ.e. bara stofnkostnaðurinn. En við teljum rétt að nálgast þetta á þann veg að allir borgi, líka þeir sem eingöngu hafa fjármagnstekjur.