133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[21:37]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra frá 1999. Þar fjöllum við um 10. gr. laganna, um greiðslu í Framkvæmdasjóð aldraðra. Þeir sem hafa fjármagnstekjur bætast í þann hóp sem greiðir umræddan nefskatt til Framkvæmdasjóðs aldraðra.

Það er vissulega verið að breyta þessum hlutum, herra forseti, vegna þess að stjórnarandstaðan hefur veitt ríkisstjórninni aðhald. Stjórnarandstaðan vakti athygli á þessu og krafðist réttlætis í þessari skattlagningu. Hingað til hafa þeir sem hafa greitt fjármagnstekjuskatt ekki greitt þennan nefskatt og nú er ríkisstjórnin að bregðast við þeirri gagnrýni. Það er hálfhjákátlegt þegar ráðherra reynir að halda því fram að þetta mál sé framhald af umræðu í ríkisstjórninni. Umræðan í ríkisstjórninni er sprottin af því að stjórnarandstaðan hefur vakið athygli á þessu, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði það mjög rækilega í umræðu um annan nefskatt sem var nefskatturinn til Ríkisútvarpsins ohf.

Mig langar í þessu samhengi að ræða hversu óréttlátir nefskattar í rauninni eru. Þeir bitna misjafnlega á fólki því að allir greiða sömu upphæð hvort sem þeir hafa háar tekjur eða lágar. Mér fannst líka svolítið sérkennilegt að ráðherra skyldi taka það sérstaklega fram að gjaldið væri óbreytt, 6.314 kr. á hvern gjaldanda. Við erum nýbúin að breyta þeirri upphæð þannig að ekki á að þurfa að nefna það hér. Þessu var breytt rétt fyrir áramót í þinginu og upphæðin var hækkuð eins og hún gerir árlega.

Ég hef gagnrýnt nefskatta nánast í hvert skipti sem við höfum rætt þá. Þeir skila sér því miður illa til þeirra verkefna sem þeir eru settir í. Við vitum að nefskatturinn í Framkvæmdasjóð aldraðra hefur alls ekki skilað sér. Í mjög langan tíma, í á annan áratug held ég, hefur rúmlega helmingur af honum skilað sér í uppbyggingu hjúkrunarrýma fyrir aldraða. Það er lýsandi dæmi um það hvernig þessir nefskattar hafa virkað. Svo langt sem það nær er ég sammála því að þeir sem eru með fjármagnstekjur eigi að greiða þennan nefskatt, fyrst við erum á annað borð með hann, og hann á að skila sér í þau verkefni sem til var ætlast.

Varðandi athugasemdirnar segir, og ráðherra kom inn á það í máli sínu áðan, að undanþegnir gjaldinu séu börn innan 16 ára, þeir sem eru 70 ára og eldri í lok tekjuárs og aldraðir og öryrkjar undir 70 ára aldri sem dveljast á dvalar- og hjúkrunarheimilum. — Þó það nú væri að við færum ekki að rukka fólk á dvalar- og hjúkrunarheimilum, sem er jafnvel bara með vasapeninga, rúmar 23 þús. kr. á mánuði.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, fyrst tækifæri gefst til þess, hvort hún telji, í ljósi þess hvað fólk á hjúkrunarheimilum þarf að greiða fyrir í hverjum mánuði, að 23 þús. kr. í vasapeninga sé ásættanleg upphæð til þeirra sem ekki hafa annað. Í fyrradag fékk ég póst frá manni sem hafði samband við mig vegna móður sinnar sem er á hjúkrunarheimili en hún hefur alla ævi átt við sjúkdóm að stríða. Hún var öryrki áður en hún kom inn á hjúkrunarheimilið, nú er hún öldruð og er eingöngu með vasapeninga. Hún þarf að greiða nánast alla þá upphæð í þjónustu, annars vegar hárþvott og hárgreiðslu eftir vikulegt bað sem henni er boðið upp á á hjúkrunarheimilinu — ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún telji það nægilegt fyrir fólk sem hefur getað farið í sturtu á hverjum degi heima hjá sér að því sé boðið upp á bað einu sinni í viku. Hún lætur sem sagt laga á sér hárið eftir þetta vikulega bað og síðan eru það snyrtivörur og annað sem fólk þarf að nota á hjúkrunarheimilinu eins og heima hjá sér.

Þessi kona, móðir mannsins sem hafði samband við mig, er á níræðisaldri og nú þarf hún ný gleraugu og þau kosta 50–60 þús. kr. Hún hefur alls ekki efni á því að kaupa ný gleraugu fyrir afganginn af vasapeningunum, sem er enginn. Ég spyr hæstv. ráðherra, fyrst við erum að ræða hér um málefni aldraðra: Hvaðan á þessi kona að fá peninga fyrir nýjum gleraugum? Er ætlast til að kona á níræðisaldri fái ekki ný gleraugu síðustu æviárin af því að hún er í þeirri stöðu að vera á hjúkrunarheimili og heimilið borgar ekki hjálpartæki eins og gleraugu? Það er enginn stuðningur nema um sé að ræða sértæk gler í gleraugunum, sem ekki er í þessu tilviki. Þessi gamla kona hefur sem sagt ekki efni á því að fá ný gleraugu. Á hún að búa við það það sem eftir er ævinnar að geta ekki nýtt sér þá sjón sem hún hefur með hjálp gleraugna? Mig langar að benda á þetta vegna þess að tekið er sérstaklega fram að þetta fólk greiði ekki í framkvæmdasjóðinn.

Herra forseti. Á dagskrá eru tvö frumvörp, bæði til bóta held ég. Verið er að gera breytingar á lögum um málefni aldraðra á sama tíma og hæstv. ráðherra er nýbúin að lýsa því yfir, þ.e. í haust, að taka eigi málaflokkinn til gagngerrar endurskoðunar. Hæstv. ráðherra tilkynnti að hún mundi setja starfshóp í það í haust. Sá starfshópur hefur ekki enn verið kallaður saman nú þegar innan við þrír mánuðir eru til kosninga. Hæstv. ráðherra kemur með tvö frumvörp í þingið um breytingar á lögum um málefni aldraðra sem samtök aldraðra, þ.e. bæði Landssamband eldri borgara og Félag eldri borgara í Reykjavík, hafa ítrekað bent á að þurfi að endurskoða í heild.

Hvernig stendur á því að ekki er búið að kalla þann hóp saman sem á að fara í þessa vinnu og hefði getað hafið vinnuna í haust? Hvernig stendur á því að þessi vinna er ekki farin af stað núna rétt fyrir kosningar? Var það einungis sýndarmennska að lýsa því yfir á blaðamannafundum með miklum lúðrablæstri að fara ætti í þessa vinnu eða hvað ræður því að sú vinna er ekki farin í gang? Ég verð að spyrja um þetta í ljósi þeirrar umræðu sem nú fer fram um breytingu á lögum — og ég ætla að nefna Aðstandendafélag aldraðra, AFA, sem einnig hefur farið fram á að farið verði í að endurskoða þessi lög í heild.

Herra forseti. Ég spyr hæstv. ráðherra út í þetta atriði og svo stöðu hjúkrunarsjúklinga sem hafa eingöngu vasapeninga, eins og aldraða konan sem ég nefndi. Hvernig á að ráða bót á því að hún geti fengið það hjálpartæki sem hún þarf til þess að geta nýtt sér sjónina það sem eftir lifir ævinnar?