133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[21:47]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þær umræður sem hafa orðið um þetta mál. Ég fagna því að almennt er því vel tekið.

Mig langar fyrst að nefna að varðandi Framkvæmdasjóð aldraðra hefur málum um langt skeið verið þannig háttað að hluti af fjármunum sjóðsins hefur farið í rekstur. Misjafnlega háar upphæðir hafa verið nýttar í rekstur og þær hafa verið að lækka hin seinni ár. Mig minnir að um 200 millj. kr. hafi farið í rekstur upp á síðkastið. Náðst hefur samkomulag um að breyta þessu fyrirkomulagi þannig að það fjármagn sem hefur farið í rekstur fari ekki lengur í reksturinn heldur verði það tekið beint af fjárlögum og rekstrarféð fari í uppbyggingu rýma. Hins vegar verður áfram gert ráð fyrir því að sjóðurinn geti styrkt verkefni sem stuðla að uppbyggingu í öldrunarþjónustu, eins og ýmis þróunarverkefni og annað slíkt. Það er ekki þannig að allt fjármagnið fari undanbragðalaust í uppbyggingu rýma heldur mun rekstrarféð fara í það. Um þetta náðist samkomulag á milli stjórnvalda og eldri borgara, en Ásmundur Stefánsson, fyrrverandi forseti ASÍ og núverandi ríkissáttasemjari, stýrði því nefndarstarfi. Ég tel að mjög góður árangur hafi náðst úr því nefndarstarfi. Þar á meðal náðist sú niðurstaða að breyta nýtingu á rekstrarfénu, þ.e. að það fari í uppbyggingu á rýmum. Sú er sem sagt orðin niðurstaðan og þetta þrepast inn á næstu tveimur árum. Þá fer þetta fjármagn í uppbyggingu rýma.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að þingmenn geri sér grein fyrir því að við höfum byggt upp mjög mörg rými á Íslandi, mörg hjúkrunarrými, og við vistum hærra hlutfall aldraðra á stofnunum en gengur og gerist í nágrannalöndunum. Það er búið að byggja upp geysilega mörg rými. Við ætlum að bæta við 374 rýmum á næstu fjórum árum. Ég tel að það sé mjög líklegt, þó ég geti ekki alveg fullyrt það, en sé ekki hvernig hægt er að rökstyðja að svo sé ekki, að við séum þá búin að byggja upp nægjanlega mörg rými í landinu til langs tíma. Það byggi ég á því að þegar við erum að skoða sambærilegar tölur í nágrannaríkjunum eru færri rými þar.

Við þurfum aftur á móti að auka heimaþjónustuna, erum að því smátt og smátt, og ríkisvaldið hefur stóraukið heimahjúkrun. En það er hneyksli að mínu mati og grafalvarlegt að sveitarfélögin hafa upp til hópa ekki staðið sína plikt. Meira en helmingur sveitarfélaga hefur dregið úr félagslegri heimaþjónustu fyrir aldraða. Þetta vilja þau sjálfsagt ekki heyra nefnt en á þann veg er niðurstaða Ríkisendurskoðunar í skýrslu sem kom út í lok árs 2005, frekar nýleg skýrsla. Þar er tekið viðmiðunartímabil 1999–2003. Mér finnst það t.d. mjög eftirtektarvert að Reykjavíkurborg hefur ekki aukið þjónustuna en öldruðum hefur þó fjölgað á þessum tíma. Mér finnst mjög alvarlegt að Reykjavíkurborg skuli hafa verið stikkfrí í þessu, að auka ekki félagslega heimaþjónustu fyrir aldraða. Þaðan hefur aldeilis heyrst hljóð úr horni og stjórnvöld hafa verið gagnrýnd. Ég held að menn ættu að líta sér nær.

Önnur sveitarfélög, ég nefni Kópavog, Garðabæ, Seltjarnarnes, Reykjanesbæ og Ísafjörð, hafa dregið úr þjónustu, þau hafa sem sé fækkað þeim tímum sem eldri borgarar hafa fengið í félagslegri þjónustu. Þjónustan hjá þessum sveitarfélögum hefur minnkað. Hvað er á seyði? Mér finnst þetta mjög alvarlegt. Á sama tíma eykst óöryggi eldri borgara. Fólk sem hefði betur fengið heimaþjónustu fyllist óöryggi og aðstandendur líka. Það fær ekki þá þjónustu sem það á rétt á, það er verið að draga úr henni. Það fyllist óöryggi og þá eykst þrýstingur á biðlistum.

Sveitarfélögin hafa að verulegu leyti brugðist í öldrunarmálum, því miður. Því þarf að breyta. Ég tel mikilvægt í því sambandi að færa málefni aldraðra til sveitarfélaganna. Þá er ábyrgðin þar og þá geta menn einhent sér í að standa betur að málum. Þá tækju sveitarfélögin að sér heimahjúkrunina, sem nú er hjá ríkinu, og líklega færu heilsugæslan og minni sjúkrahús yfir líka. Minni sjúkrahúsin eru að verulegum hluta að verða öldrunarstofnanir. Ég tel að árangur náist með því að færa þetta á eina hendi. Hin leiðin væri að færa þetta allt yfir til ríkisins, þ.e. að taka félagsþjónustu sveitarfélaga fyrir aldraða yfir til ríkisins. Ég á ekki von á því menn vilji upp til hópa gera það og því er fyrsta skrefið að færa málefni aldraðra yfir til sveitarfélaga. Ég ætla að koma lítillega inn á það í seinni hluta ræðu minnar út af spurningum hv. þm. Ástu Ragnheiðar.

Hvað varðar vasapeninga og gleraugu hef ég ekki undir höndum nein gögn. Ég get tekið það mál upp við hv. þingmann síðar, ég ætla ekki að gera það að sérstöku umtalsefni í umræðu um Framkvæmdasjóð aldraðra.

Ég hef lýst því yfir að ég vilji endurskoða lögin um málefni aldraðra. Nú höfum við lagt fram tvö frumvörp sem snúa að lögum um málefni aldraðra, lítil frumvörp. Þau eru innihaldsrík en ekki er um að ræða heildarendurskoðun laganna, langt frá því. Þó að ég hefði á fyrsta degi mínum í embætti heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra sett af stað endurskoðun á lögum um málefni aldraðra efast ég um að við værum með heildarendurskoðun í höndunum í dag því að það er talsvert verk. Það hefði ekki skipt sköpum, þessi frumvörp hefðu eigi að síður verið lögð fram. En það er rétt að ég vil láta fara yfir lögin um málefni aldraðra. Það er hagsmunamál Landssambands eldri borgara og er ég sammála þeim. Ég hef lýst því yfir að ég vilji fara út í þá heildarendurskoðun og er því hissa á því að alltaf er talað eins og einhver andstaða sé í ráðuneytinu eða hjá ráðherra. Svo er alls ekki.

Ég hef beðið í margar vikur eftir tilnefningum í tvær nefndir. Önnur nefndin á að fara í endurskoðun á lögum um málefni aldraðra og hin nefndin á að skoða tilfærslu þjónustu við aldraða til sveitarfélaga. Um er að ræða tvær stórar og mikilvægar nefndir sem snúa að kjarnanum í þessum hagsmunamálum. Við erum tilbúin með allar tilnefningar. Ég er tilbúin með formenn í þessar nefndir. Ég get upplýst það hér að Jón Kristjánsson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra og núverandi hv. þingmaður, hefur tekið sér að leiða fyrri nefndina og Einar Njálsson, sem hefur m.a. verið sveitarstjóri í nokkrum sveitarfélögum, Árborg, Grindavík og Húsavík, og hefur geysilega mikla reynslu af starfsemi sveitarfélaga, hefur tekið að sér að leiða þá síðarnefndu. Ég hef beið í margar vikur eftir tilnefningu — frá hverjum? Jú, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ég get ekki sett nefndarstarfið af stað fyrr en þeir eru komnir með tilnefningu, mér finnst ekki við hæfi að setja af stað nefndarstarf sem lýtur að starfssemi sveitarfélaga nema sveitarfélögin séu til staðar. Ég var beðin um skilning, beðin að bíða eftir tilnefningu frá þeim og ég hef gert það. Farið var fram á að beðið yrði með tilnefningar þangað til samráðsfundum Sambands íslenskra sveitarfélaga, fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra lyki. Sá fundur var síðasta föstudag, 16. febrúar. Ég hafði samband við forustu Sambands íslenskra sveitarfélaga í dag og fékk þau svör að tilnefningarnar verði tilbúnar næsta föstudag.

Ég hef verið að velta því fyrir mér, af því að ég hef beðið þessa viku eftir tilnefningunum, hvort óheppilegt hafi verið að taka það í mál að bíða. Ég hefði kannski átt að setja nefndarstarfið af stað og segja: Þið komið með ykkar fulltrúa þegar ykkur hentar. En svona er maður liðlegur við sveitarfélögin. Ég ákvað að bíða eftir því að þeir tilnefndu fulltrúa þannig að hann gæti verið með frá upphafi. Það er ástæðan fyrir því að nefndin sem ég hef beðið með í höndunum mun ekki verða til fyrr en um næstu helgi.

Ég vona að nefndarstarfið skili sér og breytingar verði til bóta. Þá er ég mjög upptekin af því að sveitarfélögin taki við málefnum aldraðra. Ég held að það gæti orðið mikilvægt og gott skref. Ég óttast hins vegar að sveitarfélögin telji sig ekki fá nægjanlega mikið fjármagn með málaflokknum. Þegar upp er staðið held ég að öll umræðan muni ganga út á það hve mikið fjármagn á að færast með málaflokknum þegar hann fer yfir. Ég tel að menn verði að lenda því með grundvallarbreytingum á tekjustofnum sveitarfélaga, það verði ákveðið kvitt og klárt þegar málaflokkurinn fer yfir og það verði málefni sveitarfélaganna eftir það að sinna þjónustu við aldraða, bæði félagslegri heimaþjónustu og heimahjúkrun og væntanlega þá heilsugæslunni inn á sjúkrahúsin. Þetta er allt að fara af stað en sökum liðlegheita við sveitarfélögin hef ég ekki viljað setja vinnuna í gang nema þau sætu við borðið frá upphafi. Það er skýringin á þessu. En Landssamband eldri borgara veit að mikill vilji er til að fara í gang með þessa vinnu og það hefur skilað inn tilnefningum sínum. Það er alls ekki neitt upp á þau að klaga. Þau eru tilbúin með sitt fólk í þetta starf.