133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[22:00]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nokkur atriði sem ég ætla að nefna í svari hæstv. ráðherra til mín vegna þess sem ég sagði í fyrri ræðu minni. Aldraðir eru mjög ósáttir við að verið sé að taka fé úr framkvæmdasjóðnum í alls konar verkefni. Ég hef fengið að heyra það frá fulltrúum þeirra. Ég ætla að vekja athygli á því að það er ekki verið að setja alla peningana úr framkvæmdasjóðnum í uppbyggingu fyrr en eftir að hæstv. ráðherra er hættur á ráðherrastóli. Að minnsta kosti er ekki verið að setja alla peningana sem koma inn í hann á þessu ári í uppbyggingu heldur bara helminginn.

Það segir manni auðvitað að það er verið að setja helminginn af peningunum sem áttu að fara uppbyggingu á þessu ári, í uppbyggingu, hinn helmingurinn fer í annað. Þannig að það er alveg ljóst.

Mér finnst algerlega ástæðulaust að hæstv. ráðherra sé að bíða eftir sveitarfélögunum með þessa vinnu, ef hún ætlar í þessa vinnu á annað borð, sveitarfélögum sem hafa dregið úr þjónustu.

Hæstv. ráðherra gagnrýnir sveitarfélögin og Reykjavíkurborg fyrir að draga úr þjónustu en ég verð að segja það hér að hæstv. ráðherra á nú aðild að stjórnarmeirihlutanum þar. Og ég verð að segja ríkisvaldið hefur líka veitt allt of litla heimaþjónustu. Ég ætla bara að nefna sem dæmi sem ég fékk í gær um 96 ára gamla konu í Reykjavík sem er blind og er með göngugrind. Eina þjónustan sem hún fær eru fimm mínútur á morgnana frá borginni til að klæða hana og fimm mínútur á kvöldin frá ríkinu til að hátta hana.

Það er nú öll heimaþjónustan sem 96 ára gömul kona, sem er blind og á erfitt með að hjálpa sér sjálf, fær (Forseti hringir.) frá ríki og borg.