133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[22:05]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get að sjálfsögðu ekkert tjáð mig um einhver einstaklingsmál. Ég get það ekki. Ég verð að treysta á að heimahjúkrunin meti það faglega hvað hver þarf á að halda og félagsþjónusta sveitarfélaga geri það líka. Ég verð að bera traust til þeirra um það mat.

En varðandi það að færa málaflokkinn til sveitarfélaga, sem við erum sammála um, ég og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, þá vil ég draga það fram sem ég hef velt svolítið fyrir mér varðandi tilflutninginn á fjármagni. Maður heyrir dálítið hjá sveitarfélögunum, það er ekki niðurstaða, en það sem maður heyrir er að það er hægt að skoða þetta, en að lokum þarf að ákveða hvaða fjármagn fer á milli. Af því það er erfitt og flókið þá verður kannski hægt að setja upp eitthvert fyrirkomulag sem væri þannig að málaflokkurinn færi yfir til sveitarfélaganna og fengi x krónur með, og svo væri það til endurskoðunar eftir einhvern ákveðinn tíma. Þetta þýðir að menn skrifa opinn tékka og ég held að stjórnvöld, (Forseti hringir.) hver sem þá stýrir málum, gætu aldrei samið á þann hátt.