133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[22:07]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er svolítið merkilegt sem hér kom fram. Hæstv. ráðherra furðar sig á því að mörg sveitarfélög eigi í basli við að standa við skuldbindingar sínar. Það var svolítið merkilegt að ráðherrann skuli undra sig á því.

Það er einfaldlega þannig að það er tekjusamdráttur í mörgum sveitarfélögum og það hafa verið birtar um það skýrslur nýlega að á sumum svæðum landsins hefur efnahagsbatinn verið niður á við, með mínus. Og fólki hefur fækkað alveg geysilega á sumum landsvæðum, upp í 25–30% frá 1997–2006.

Sveitarfélögin eru auðvitað að reyna að baslast við að veita sem besta þjónustu. En þegar þau eiga í raun og veru ekki næga fjármuni til að veita þjónustuna, þá kemur auðvitað að því að menn eru einhvers staðar að reyna að skera niður.

Ég hygg að tekjuvandi sveitarfélaganna sé að verða eitt stærsta vandamálið sem þarf að taka á í þessu þjóðfélagi, hæstv. forseti, og þar kemur auðvitað margt til. Það eru m.a. einkahlutafélögin, það dregur úr tekjum til sveitarfélaga í gegnum þau. Þeir sem greiða reikning upp á fjármagnstekjuskatt greiða ekki endilega útsvar til sveitarfélaganna o.s.frv.

Þannig að þetta kemur víða við, hæstv. forseti, og það er almennur tekjusamdráttur á sumum svæðum landsins, eins og hæstv. ráðherra hlýtur að vita. Til dæmis er mjög mikil fólksfækkun á Norðvesturlandi, Vestfjörðum, Norðausturlandi og á Suðausturlandi í mörgum sveitarfélögum og þá er auðvitað erfitt að veita fulla þjónustu og sveitarfélögin eiga hreinlega erfitt að standa undir því sem þeim ber þó lagaleg skylda til.