133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[22:09]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki svona einfalt eins og hér er verið að draga upp. Af hverju í ósköpunum eru Kópavogur, Garðabær, Seltjarnarnes og Reykjanesbær að draga úr félagslegri heimaþjónustu fyrir aldraða? Þetta eru ekki sveitarfélög sem eru í neinu basli. Þetta eru sveitarfélög sem eru í vexti og sókn. Þetta eru meðal ríkustu sveitarfélaga landsins. Þetta eru ekki sveitarfélög sem eru að basla. Alls ekki. En þetta eru sveitarfélögin sem hafa dregið úr félagslegri heimaþjónustu fyrir aldraða samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þannig að þessi röksemdafærsla heldur ekki.

Það eru hugsanlega einhver sveitarfélög sem hafa þurft að draga úr þjónustunni af því þau eru í basli. En þetta heldur ekki. Sú röksemdafærsla heldur ekki gagnvart stóru sveitarfélögunum hér á höfuðborgarsvæðinu sem hafa verið að draga úr þjónustu við aldraða.

Mér fannst mjög eftirtektarvert í kosningabaráttunni fyrir sveitarstjórnarkosningarnar síðasta vor, að þá var sameiginlegur kór sveitarfélaga að gagnrýna stjórnvöld út af málefnum aldraðra. Sameiginlegur kór og m.a. þeirra sveitarfélaga sem ég er búin að lesa hér upp að drógu úr þjónustunni við aldraða meðan ríkið hefur verið að auka þjónustuna og bæta við fjármagni. Þá er verið að skerða tímana sem þessi stóru sveitarfélög settu inn í málefni aldraðra. Þannig að þetta er ekki svona einfalt að fátæk sveitarfélög séu að draga úr. Það eru líka forrík sveitarfélög sem gera það.