133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[22:15]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel ekkert því til fyrirstöðu að þetta nefndarstarf fari í gang. Verði stjórnarskipti sem enginn auðvitað veit, það er bara eitthvað sem kemur í ljós, og komi hér nýr meiri hluti sem vill breyta þessu nefndarstarfi þá gerir hann það. Það er ekkert nýtt í því. Þannig er alltaf unnið. Stjórnsýslan getur ekki stöðvast af því að kosningar eru í nánd, alls ekki. Ég hefði gjarnan viljað að þetta nefndarstarf hefði verið komið á núna en eins og ég sagði áðan kaus ég af tillitssemi við sveitarfélögin, sem skipta auðvitað geysilega miklu máli í þessu, að bíða eftir því að þau kæmu með fulltrúa sína í báðar nefndirnar, bæði til að endurskoða lögin um málefni aldraðra og að fara í þá vinnu að skoða hvernig færa eigi málaflokkinn til sveitarfélaga. Mér fannst eiginlega ekki við hæfi að byrja þetta nefndarstarf nema þeir sætu við borðið en því miður hef ég þurft að bíða þennan tíma eftir þeim. Þannig er það, það er ekki á allt kosið í þessu. Landssamband eldri borgara þekkir til þessa vilja míns og það hefur skilað inn tillögum sínum um fólk til að vera í samstarfi við okkur í þessum tveimur nefndum. Ég tel ekki að stjórnsýslan og stefnumótunin eigi að stöðvast þó að kosningar séu í nánd en fari svo að nýr meiri hluti taki við stjórn getur hann aflýst þessu starfi eða breytt því eða sameinað nefndirnar í eina eða guð má vita hvað. Það er allt opið í þessu eins og öllu öðru og það er ekkert nýtt.