133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[22:17]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir með hæstv. heilbrigðisráðherra að það væri óeðlilegt að stjórnsýslan stöðvaðist í aðdraganda kosninga en spurningin er hvort hún eigi að örvast í aðdraganda kosninga eins og yfirleitt vill verða. Ég hafði orð á því í þessum ræðustól fyrir nokkrum dögum, í tilefni af einhverjum framtíðarnefndum og loforðum inn í næsta kjörtímabil, að ráðuneytin breyttust í aðdraganda kosninga og yrðu að eins konar kosningaskrifstofum stjórnarflokkanna. Það verður fylgst mjög rækilega með stjórninni hvað þessu viðkemur og mér fyrir mitt leyti finnst mjög óviðkunnanlegt þegar ráðherrar gæta ekki hófs í aðdraganda kosninga.