133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[22:19]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs fyrst og fremst til að fyrirbyggja að einhvers misskilnings komi til með að gæta varðandi það sem ég hef sagt. Ég er í sjálfu sér ekki að leggjast gegn þessari nefndarskipan og vil á engan hátt bregða fæti fyrir hana. Ég er einvörðungu að vekja athygli á því að kjörtímabil ríkisstjórnarinnar er á enda runnið og hún á að gæta hófs þegar kemur að vangaveltum um framtíðina. Menn geta gert það í kosningaloforðum og kosningabæklingum, ekki í bæklingum sem framleiddir eru á kostnað skattborgarans, það á að gera á kostnað flokka og koma fram í nafni flokkanna. Ég er að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir þetta. Ég hef orðið þess var að undanförnu að ráðherrar eru margir að færa sig upp á skaftið og ég kvíði þeim tíma þegar þingi lýkur. Það er stefnt að því að ljúka þinghaldinu um miðjan marsmánuð og mér segir svo hugur að þá fyrst verði skærin tekin fram fyrir alvöru og þá hefjist miklar borðaklippingar.